Innlent

Sakfelldur fyrir fjárdrátt af heimili fyrir þroskahamlaða

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Skálatún í Mosfellsbæ er heimili 35 einstaklinga með þroskahömlun, en auk þess er þar rekin dagþjónusta og sundlaug.
Skálatún í Mosfellsbæ er heimili 35 einstaklinga með þroskahömlun, en auk þess er þar rekin dagþjónusta og sundlaug. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt og brot í opinberu starfi.

Maðurinn starfaði sem launafulltrúi og bókari hjá Skálatúni, heimili fyrir þroskahamlaða. Var hann sakfelldur fyrir að hafa dregið að sér tæpar 11,4 milljónir króna af fjármunum heimilisins.

Vísir greindi fyrst frá málinu í október 2020.

Fram kemur í dómnum maðurinn hafi á níu ára tímabili, frá 1. september 2010 til 28. júní 2019, millifært alls 53 sinnum af bankareikningi Skálatúns í Arion banka yfir á sinn reikning. Færslurnar voru allt frá 45 þúsund krónum upp í 350 þúsund krónur.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi en samkvæmt sakavottorði hefur hann ekki áður sætt refsingu. 

Við ákvörðun refsingar var litið til þess og auk þess tók dómurinn mið af því að maðurinn var samvinnuþýður við rannsókn málsins.

Þá kemur fram að maðurinn hafi endurgreitt Skálatúni að fullu þær fjárhæðir sem hann dró að sér auk þess sem nokkuð er liðið frá því brotin voru framin.

Hins vegar leit dómurinn einnig til þess að brotin stóðu yfir í langan tíma og vörðuðu umtalsverðar fjárhæðir.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness




Fleiri fréttir

Sjá meira


×