Innlent

Féll í gjá við Öxar­á

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hér má sjá gjánna sem gesturinn féll ofan í.
Hér má sjá gjánna sem gesturinn féll ofan í. Þingvallaþjóðgarður

Gestur þjóðgarðsins á Þingvöllum lenti í lífsháska eftir að hann féll ofan í vatnsgjá við Öxará í gær. Gesturinn fór á bólakaf í vatnið en samferðamaður hans og annar gestur þjóðgarðsins komu honum til bjargar. 

Snjór hafði hulið vatnsgjánna en hann gaf sig þegar gesturinn gekk þar yfir. Í færslu á vefsíðu Þingvalla segir að gjáin sé mjög djúp en lofthiti á svæðinu var um mínus átján gráður þegar atvikið átti sér stað. 

Eftir að gestinum var komið upp úr gjánni komst hann ásamt samferðamanni sínum í bíl sinn sem hafði verið lagt spölkorn frá. Gestunum var báðum brugðið en komust til síns heima og létu þjóðgarðsstarfsfólk vita af slysinu. 

„Ljóst er að hættur skapast alltaf í þjóðgarðinum þegar snjó hefur kyngt niður eins og undanfarinn mánuð. Snjó skefur yfir gjár sem eru óteljandi í þjóðgarðinum og því geta slíkar hættur leynst víða,“ segir í færslunni á vef Þingvalla. Gestir eru hvattir til þess að fara alltaf með ítrustu gát um þjóðgarðinn þegar útivist er stunduð og fara ekki út fyrir stíga. 

Gjáin hefur verið merkt með appelsínugulri keilu. Þingvallaþjóðgarður


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×