Innlent

Tveir leituðu læknis­að­stoðar eftir að maður gekk ber­serks­gang í Kringlunni

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Framkvæmdastjóri segir manninn fljótlega hafa verið yfirbugaðan.
Framkvæmdastjóri segir manninn fljótlega hafa verið yfirbugaðan. Vísir/Vilhelm

Karlmaður gekk berserksgang í Kringlunni í dag og kýldi meðal annars konu sem við það féll í gólfið og slasaðist. Hún var flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Öryggisvörðum tókst að yfirbuga manninn en einn öryggisvörður þurfti að leita á sjúkrahús eftir átökin.

Atvikið átti sér stað skömmu fyrir lokun í verslunarmiðstöðinni, seinnipartinn í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun maðurinn hafa misst stjórn á sér inni í verslun H&M á annarri hæð Kringlunnar og barið niður gínur sem stóðu í versluninni. Því næst hafi hann farið niður á fyrstu hæð og kýlt gesti og gangandi. 

Sigurjón Örn Þórsson framkvæmdastjóri Kringlunnar staðfestir atvikið í samtali við Vísi.

„Hann lendir í einhverjum ryskingum á leið sinni niður á neðri hæð, hann er ekki lengi án þess að verða yfirbugaður. Ég held að það séu einhverjar þrjár til fjórar mínútur frá því að tilkynning berst í stjórnstöð.“

„Á leið sinni frá annarri hæð niður að fyrstu þá verða einhverjar ryskingar að minnsta kosti á tveimur stöðum skilst okkur. Hann er yfirbugaður þar af öryggisvörðum og lögregla kölluð til. Hún kom mjög hratt á staðinn skildist mér,“ segir Sigurjón Örn. 

Öryggisverðir hafi haldið manninum í taki þar til lögregla mætti á vettvang. 

Eins og fyrr segir slasaðist öryggisvörður í átökunum en Sigurjón Örn segist ekki hafa upplýsingar um líðan annarra gesta. 

„Öryggisvörður sem átti í útistöðum við viðkomandi þurfti að leita lækninga. En það er víst ekki alvarlegt en engu að síður auðvitað alltaf alvarlegt þegar menn verða fyrir hnjaski.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×