Lífið

Lisa Marie Presley á sjúkrahúsi eftir hjartastopp

Samúel Karl Ólason skrifar
Lisa Marie Presley á Golden Globe verðlaunahátíðinni á þriðjudagskvöld.
Lisa Marie Presley á Golden Globe verðlaunahátíðinni á þriðjudagskvöld. Getty/Joe Scarnici

Söngkonan Lisa Marie Presley, dóttir tónlistarmannsins heitna Elvis Presley, var flutt á sjúkrahús í kvöld. Hún er sögð hafa farið í hjartastopp á heimili hennar í Calabasas í Kaliforníu.

Heimildarmenn miðilsins TMZ segja að sjúkraflutningamenn hafi gert endurlífgunartilraunir á henni og komið hjarta hennar af stað á nýjan leik, áður en hún var flutt á sjúkrahús. Ekki liggur fyrir hvað kom fyrir né hver líðan hennar er.

Lisa Marie, sem er 54 ára gömul, var á Golden Globe verðlaunahátíðinni fyrr í vikunni með Priscillu Presley, móður sinni. Leikarinn Austin Butler fékk verðlaun á hátíðinni fyrir að leika Elvis Presley í samnefndri kvikmynd.

Hún er einkabarn þeirra Elvis og Priscillu en á sjálf þrjú börn en sonur hennar svipti sig lífi árið 2020. Hún hefur verið gift fjórum sinnum en eiginmenn hennar voru þeir Danny Keough, Michael Jackson, Nicolas Cage og Michael Lockwood.

Uppfært 21:55 - TMZ hefur nú eftir heimildarmanni að húshjálp Lisu Marie hafi komið að henni meðvitundarlausri í svefnherbergi hennar og að Danny Keough, fyrrverandi eiginmaður hennar, hafi veitt henni hjartahnoð þar til sjúkraflutningamenn bar að garði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×