Innlent

Laus brunn­dæla til bjargar þegar far­þega­skip sigldi á hval

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Hesteyri þangað sem Sif var á leiðinni.
Frá Hesteyri þangað sem Sif var á leiðinni. Vísir/Kolbeinn Tumi

Talið er líklegast að farþegaskipið Sif sem ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures gerir út hafi siglt á hval á leið sinni frá Ísafirði til Hesteyrar í Jökulfjörðum. Höggið leiddi til talsverðs leka í vélarrúminu. Laus brunndæla í skipinu kom í veg fyrir að það sykki.

Fjallað er um atvikið í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Það var 8. ágúst sumarið 2022 sem atvikið varð eftir um hálftíma siglingu frá Ísafirði. Nánast á sama tíma og skipverjar urðu varir við hval í nokkurra hundruð metra fjarlægð kom mikið högg undir skipið.

Viðvörun kom frá bakborðsvél og í ljós kom talsverður leki að vélarrúminu. Snúið var við og siglt á átta til níu sjómílna ferð til hafnar á stjórnborðsvélinni.

Í skýrslu nefndarinnar, sem lesa má hér neðst í fréttinni, segir að tvær aðalvélar hafi verið í skipinu með sameiginlegt vélarrúm. Við höggið hafi sjóinntakið fyrir bakborðsvélina gengið til og sjór farið að leka inn með því.

Fram kemur að leki hafi verið með bakborðs og skrúfuþétti í nokkrar vikur fyrir atvikið en sjálfvirka lensidælan haft undan þeim leka. Þá hafi stór lensidæla, sem var véldrifin á annarri vélinni, verið biluð og þannig hafi staðan verið í nokkra mánuði. Laus brunndæla um borð hafi verið notuð þegar lekinn kom upp og það komið í veg fyrir að það sykki.

Þegar skipið var híft upp á bryggju kom í ljós að skrúfuöxullinn fyrir bakborðsvélina hafði gengið eina fimmtán sentímetra aftur og bognað. Upphengjan fyrir öxulinn hafði líka bognað það mikið að skrúfan náði að gera gat á skrokkinn inn í stýrisvélarýmið. Stýrisblað við bakborðsskrúfuna var bogið og hafði gengið til. Einnig hafði gírhúsið fyrir framdriftsgírinn á bakborðsvélinni brotnað þegar skrúfuöxullinn gekk aftur.

Vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar framkvæmdi Samgöngustofa ekki vélaskoðun á skipinu þegar það var skráð á íslenska skipaskrá. Vélaskoðun hjá norsku siglingastofnuninni sem framkvæmd hafði verið í desember 2020 hafði verið látin gilda. Þá var skipið ekki rétt lögskráð.

Tengd skjöl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×