Innlent

Fluginu frestað eftir á­rekstur á Kefla­víkur­flug­velli

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Farþegar vélarinnar voru beðnir að safnast saman í töskusal flugstöðvarinnar og bíða frekari upplýsinga.
Farþegar vélarinnar voru beðnir að safnast saman í töskusal flugstöðvarinnar og bíða frekari upplýsinga. Una María

Flugvél á vegum hollenska flugfélagsins Transavia, sem áætlað var að flygi til Amsterdam nú í kvöld, er ekki á förum í bráð. Ástæðan er sú að ökutæki við störf á flugvellinum var ekið á vélina.

Í samtali við Vísi segir Una María Magnúsdóttir, sem var stödd inni í vélinni þegar fréttastofa náði af henni tali, að flugmaðurinn hefði tjáð farþegum að því miður yrði ekki flogið í kvöld vegna þessa óhapps sem varð meðan vélin var í stæði.

„Við fengum tilkynningu um að það hefði ökutæki keyrt á vélina og hún væri of sködduð til að fljúga,“ segir Una. 

Farþegar bíði frekari upplýsinga

Farþegar hafi verið beðnir að fara frá borði og safnast saman í töskusal flugstöðvarinnar þar sem þeim var tjáð að þeir fengju nýtt flug klukkan 9:30 í fyrramálið.

„Flugmaðurinn sagði að vélin væri það sködduð að þau þyrftu að fá einhverja skoðun til að mega fljúga með okkur. Helst hefðu þau viljað setja okkur í nýja vél en það væri engin laus. Þannig að það eru bara allir á hótel og reynt aftur á morgun,“ sagði Una. 

Sjálf ætlaði hún þó ekki að verja nóttinni á hóteli, heldur hafði hún þegar hringt í kærastann sinn sem ætlaði að koma um hæl og sækja hana.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA, staðfesti í samtali við fréttastofu að ekið hefði verið á vélina og málið væri í skoðun. Að öðru leyti gat hann ekki tjáð sig að svo stöddu.

Fréttin var uppfærð klukkan 20:56.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×