Innlent

Frosthörkur gera garðyrkjubændum erfitt fyrir

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Frosthörkur síðustu vikur hafa gert garðyrkjubændum í Uppsveitum Árnessýslu erfitt fyrir við að halda hita á gróðurhúsunum sínum.  Á sama tíma hafa þeir þurft að auka við lýsingu í húsum sínum.
Frosthörkur síðustu vikur hafa gert garðyrkjubændum í Uppsveitum Árnessýslu erfitt fyrir við að halda hita á gróðurhúsunum sínum. Á sama tíma hafa þeir þurft að auka við lýsingu í húsum sínum. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Frosthörkur síðustu vikur hafa gert garðyrkjubændum í Uppsveitum Árnessýslu erfitt fyrir við að halda hita á gróðurhúsunum sínum. Á sama tíma hafa þeir þurft að auka lýsinguna í gróðurhúsum til að auka vöxt plantna með tilheyrandi kostnaði í kuldatíðinni.

Garðyrkjubændur hafa ekki farið varhluta yfir frostinu og vetrarhörkunni síðustu vikur og hafa margir þeirra verið á nálum yfir ástandinu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar þáði boð garðyrkjubænda í síðustu viku að koma á fund þar, sem rætt um ýmsa þætti sem snúa að rekstrarumhverfi garðyrkjubænda í sveitarfélaginu, og snertifleti við sveitarfélagið, þar á meðal um aðgerðir sem hefur þurft að grípa til vegna mikils álags á hitaveitu í þessum harða og langvarandi frostakafla, sem enn stendur yfir en nokkra daga hefur farið vel yfir 20 stiga frost á svæðinu.

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar sat fundinn og þekkir því til stöðu garðyrkjubænda þessi misserin, eins og í Reykholti í Biskupstungum.

„Og það reynir á hitaveituna í slíku ástandi, þannig að það er verið að reyna að miðla vatni, sem best á milli þessara stöðva og nýta það vatn, sem best er. Svo eru menn að auka lýsingu í gróðurhúsum á móti og ná þannig upp meiri hita, lýsa lengur fram og kvöldið og slíkt,” segir Ásta og bætir við.

„En auðvitað í svona miklu frosti og kulda þá reynir á og auðvitað vaxa plöntur hægar og skila sínum afurðum hægar þegar þær hafa ekki það kjörhitastig, sem að þarf að vera.”

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, sem segir hljóðið almennt gott í garðyrkjubændum fyrir utan þetta með mikla frostið síðustu vikur, sem hefur gert þeim erfitt fyrir.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ásta segir að tjón garðyrkjubænda sé töluvert vegna lítils vaxtar plantna í gróðurhúsunum í kuldanum og svo að þurfa að kosta til aukinnar raflýsingar.

En hvernig er hljóðið svona almennt í garðyrkjubændum fyrir utan þetta?

„Það eru nú bara ágætt. Þeir ná að selja allt, sem þeir eru að framleiða og gætu selt meira og menn hafa hug á meiri stækkunum á gróðurhúsum. Það var mikið stækkað hér af gróðurhúsum fyrir tveimur til þremur árum og menn hafa áhuga á að halda því áfram,” segir Ásta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×