Innlent

Dómarar fá vænan jólabónus

Jakob Bjarnar skrifar
Hæstaréttardómarar að störfum. Þeir fengu 230 þúsund króna persónuuppbót í desember og ættu því ekki að þurfa að lepja dauðann úr skel vegna verðlagshækkana sem hafa verið ærnar að undanförnu.
Hæstaréttardómarar að störfum. Þeir fengu 230 þúsund króna persónuuppbót í desember og ættu því ekki að þurfa að lepja dauðann úr skel vegna verðlagshækkana sem hafa verið ærnar að undanförnu. vísir/vilhelm

Stjórn dómstólasýslunnar ákvað á fundi sínum sem fram fór 10. nóvember á síðasta ári að persónuuppbót dómara í desember skuli vera 229.500 krónur.

Stjórnin ákvarðar um jólabónusinn á hverju ári og er þetta í samræmi við reglur um almenn starfskjör dómara, að því er fram kemur í fundargerð. Þar segir að umræða hafi farið fram um málið. Fundinn sátu þau Sigurður Tómas Magnússon, Lilja Björk Sigurjónsdóttir, Arnaldur Hjartarson, Lúðvík Örn Steinarsson og Davíð Þór Björgvinsson.

Þessi tala tekur síðan breytingum í samræmi við meðaltalsbreytingu á vísitölu Hagstofu. Þannig fengu ríkisforstjórar 3,2 prósentu hækkun á laun sín um áramótin.

Á síðasta ári bárust fréttir af því að Dómarafélag Íslands væri afar ósátt við að kjör félagsmanna rýrnuðu eftir að tilkynnt var um að laun helstu ráðamanna og embættismanna ríkisins hafi verið ofgreidd undanfarin þrjú ár. 

Reiknað var með að alls hafi um 105 milljónir verið ofgreiddar til 260 einstaklinga og var gerð krafa um endurgreiðslu hinna ofgreiddu launa. Kjartan Bjarni Björgvinsson formaður Dómarafélagsins sagði þá að dómarar myndu að óbreyttu leita réttar síns vegna málsins. Ekkert hefur hins vegar frést frekar af þeim hugsanlega málarekstri þannig að gera má því skóna, að viðbættri þessari ákvörðun um persónuuppbót dómara, að það mál hafi verið til lykta leitt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×