Innlent

Starfs­fólk sendi­ráðsins á sjúkra­hús vegna grun­sam­legrar sendingar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi núna upp úr klukkan 14:30.
Frá vettvangi núna upp úr klukkan 14:30. Vísir/Vilhelm

Starfsfólk bandaríska sendiráðsins við Engjateig var flutt á sjúkrahús til skoðunar til öryggis eftir að það handlék grunsamlega sendingu. Sérsveit ríkislögreglustjóra og slökkvilið var kallað til vegna sendingarinnar.

Töluverður viðbúnaður var fyrir utan sendiráðið um miðjan dag. Lögreglumenn og sérveitarmenn fylgdust með þegar slökkviliðsmenn í hlífðarbúningum aðhöfðust við innganginn.

Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra segir að viðbragðið hafi verið vegna sendingar sem starfsfólk sendiráðsins handlék. Farið hafi verið eftir sérstöku verklagi og sendingin fjarlægð. Upplýsingafulltrúi sendiráðsins segir Vísi að grunsamleg sending hafi borist.

Starfsfólkinu varð ekki meint af, að sögn lögreglu, en var flutt á sjúkrahús til skoðunar til öryggis. Lögregla rannsakar innihald sendingarinnar.

Kristinn Gilsdorf, upplýsingafulltrúi í sendiráðinu, segir alla í sendiráðinu hafa haldið ró sinni vegna málsins.

Upphafleg fréttin af vettvangi er hér fyrir neðan:

Fjöldi lögreglumanna stendur nú vaktina við bandaríska sendiráðið við Engjateig í Reykjavík. Upplýsingafulltrúi sendiráðsins segir atvik hafa komið upp sem hafi kallað á aðkomu lögreglu.

Fulltrúar lögreglu og slökkviliðs eru á vettvangi og nokkur fjöldi manna er klæddur í hlífðargalla og með grímur. Umferð um Engjateig hefur verið lokað. Gestir á Hilton hóteli, gegnt sendiráðinu, fylgjast með út um gluggann og gangandi vegfarendur sömuleiðis.

Kristinn Gilsdorf, upplýsingafulltrúi í sendiráðinu, segir í samtali við fréttastofu að atvik hafi komið upp fyrir utan sendiráðið sem leiddi til þess að ákveðið hefði verið að kalla til lögreglu.

Málið væri í skoðun og hann gæti lítið tjáð sig um málið. Lögregla hefði tekið ákvörðun um að loka götunni.

Fylgst er með gangi mála í vaktinni að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×