Innlent

Útlit fyrir að kuldakastið slái sjötíu ára gamalt met

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Útlit er fyrir áframhaldandi frost næstu daga. 
Útlit er fyrir áframhaldandi frost næstu daga.  Vísir/Vihelm

Meðalhiti í Reykjavík hefur verið undir frostmari samfellt í 22 daga og er um að ræða eitt lengsta kuldakast frá því að mælingar hófust árið 1949. Verði áfram frost út 1. janúar, sem útlit er fyrir, jafnar það metið frá árinu 1951.

Frá þessu greinir Veðurstofan í færslu á Facebook en kuldakastið í desember, sem hófst sjöunda desember, er í fjórða til sjötta sæti yfir lengstu kuldaköstin frá árinu 1949 miðað við meðalhita. Desembermánuður í ár er eini mánuðurinn á öldinni sem nær á lista yfir tíu lengstu kuldaköstin.

Útlit er fyrir að 29. desember til 1. janúar verði einnig frost dagar og gengur það eftir mun kuldakastið hafa varað í 26 daga, jafn langt og í marsmánuði 1951 sem var met.

Veðurstofan hefur það þó eftir Halldóri Björnssyni, haf- og veðurfræðingi, að það sé hægt að mæla kuldaköst á ýmsa vegu. Meðalhiti sólarhrings er ein aðferð og mælir hún lengri kuldaköst en ef miðað er við hámarkshita, þar sem dagur getur mælst undir frostmarki þó að hiti fari yfir frostmark hluta dags.

Sé miðað við hámarkshita hvers dags lauk kuldakastinu í Reykjavík í ár á jóladag þar sem hitinn fór í hálfa gráðu. Hafði það síðast gerst þann ellefta desember og kuldakastið á þeim mælikvarða því fjórtán dagar.

Engu að síður er kuldakastið í þriðja sæti yfir frá 1949 miðað við hámarkshita en lengsta kuldakastið á þeim mælikvarða var í janúar 1956 eða 21 dagur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×