Erlent

Viður­kennir að hafa logið á feril­skránni en ætlar samt inn á þing

Bjarki Sigurðsson skrifar
George Santos segist einungis hafa ýkt ferilskrána sína.
George Santos segist einungis hafa ýkt ferilskrána sína. Getty/David Becker

George Santos, sem nýverið var kosinn þingmaður í New York-ríki í Bandaríkjunum fyrir Repúblikana, hefur viðurkennt að hafa logið á ferilskrá sinni. Hann gerir þó lítið úr fölsun sinni, segist einungis hafa gerst sekur um ýkja á ferilskránni og ætlar að taka sæti á þinginu eftir áramót líkt og hann var kosinn til þess að gera. 

New York Times greindi frá því fyrir viku síðan að margt af því sem Santos hélt fram að hafa gert yfir ævina væri hreinn uppspuni. Til dæmis laug hann um að hafa unnið hjá stærstu fyrirtækjum Wall Street, um að hafa rekið dýraskýli og úr hvaða háskóla hann útskrifaðist. Fjallað var ítarlega um þær lygar sem Santos var sakaður um hér á Vísi. 

Santos neitaði að að svara fyrirspurnum vegna málsins og deildi einungis yfirlýsingu frá lögfræðingi sínum til að byrja með þar sem New York Times var sakað um að reyna að grafa undan samkynhneigðum repúblikana af erlendum uppruna. 

Í gær, sex dögum síðar, tjáði Santos sig loks við New York Post og fleiri miðla um málið. Þar sagðist hann einungis hafa gerst sekur um að hafa ýkt nokkra hluti á ferilskránni sinni. 

Hann viðurkenndi að hafa logið um að hafa útskrifast úr háskóla og að hafa sagt misvísandi hluti um starfsferil hjá Citigroup og Goldman Sachs, tveimur af stærstu fyrirtækjum Wall Street. Þá hafði hann eitt sinni haldið því fram að hafa átt þrettán fasteignir en viðurkenndi nú að hann væri ekki réttmætur eigandi þeirra. 

Ekki Jewish heldur Jew-ish

Santos hafði einnig verið gagnrýndur fyrir misvísandi upplýsingar um uppruna sinn. Foreldrar hans fluttu til Bandaríkjanna frá Brasilíu en hann hefur einnig haldið því fram að hann eigi ættir að rekja til Evrópu. Hann hefur verið sakaður um að reyna að ná til gyðinga í Bandaríkjunum með því að halda fram að foreldrar móður hans hafi flutt til Brasilíu frá Evrópu á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Útskýring Santos á þessum misskilning reyndist ansi kostuleg. 

„Ég hef aldrei haldið því fram að ég væri gyðingur (Jewish). Ég er kaþólikki. En út af því að ég komst að því að móðurfjölskylda mín ætti ættir að rekja til gyðinga sagðist ég vera gyðinglegur (Jew-ish),“ sagði Santos við New York Post. Misskilninginn mátti útskýra með einu bandstriki sem erfitt er að átta sig á að sé til staðar í talmáli. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×