Innlent

Verður ekki á­kærður fyrir að selja bjór

Árni Sæberg skrifar
Dagbjartur bruggaði um tíma bjór í Borgarnesi og keyrði um allt land.
Dagbjartur bruggaði um tíma bjór í Borgarnesi og keyrði um allt land. Stöð 2

Eigandi brugghússins Steðja verður ekki ákærður fyrir að hafa stundað smásölu áfengis án þess að hafa til hennar tilskilin leyfi.

Dagbjartur Ingvar Arelíusson, eigandi brugghússins Steðja, greinir frá því á Facebook að hann verði ekki sóttur til saka fyrir að hafa selt bjór í netsölu og keyrt út til viðskiptavina.

„Kæru landsmenn, við þökkum kærlega fyrir viðskiptin í gegnum tíðina. Fengum jólagjöfina okkar í pósti í dag. Frelsið er yndislegt - gleðileg jól,“ segir Dagbjartur.

Í bréfi frá Lögreglustjóranum á Vesturlandi til Dagbjartar segir að ákæruvaldið telji að háttsemi hans varði við áfengislög en að ákveðið hafi verið að falla frá saksókn með vísan til laga um meðferð sakamála.

Selur ekki meiri bjór

Dagbjartur hvetur viðskiptavini Steðja til að skála í Steðjakveðju frá Borg brugghúsi. Jólabjórinn Steðjakveðja, sem bruggaður var af bruggmeisturum Borgar í samstarfi við Steðja, er síðasti bjórinn sem bruggaður er undir merkjum Steðja. Brugghúsið, sem var í Borgarnesi, lagði upp laupana í september síðastliðnum.


Tengdar fréttir

Lögregla rannsakar netsölu hjá brugghúsinu Steðja

Lögreglan á Vesturlandi hefur hafið rannsókn bjórsölu sem eigandi brugghússins Steðja í Borgarfirði stendur að en hann hefur sett upp netverslun þar sem átta tegundir bjórs eru til sölu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×