Innlent

Blöskraði á­hugi fé­laga síns á dróna­á­rásum

Árni Sæberg skrifar
Annar mannanna kveðst hafa trúað því að hinn myndi láta verða af voðaverkum.
Annar mannanna kveðst hafa trúað því að hinn myndi láta verða af voðaverkum. Vísir

Í framburði manns, sem ákærður hefur verið fyrir hlutdeild í tilraun til skipulagningar hryðjuverka, segir að honum hafi blöskrað mikill áhugi félaga síns á drónaárásum og hversu langt hann væri kominn í slíkum pælingum.

Á dögunum felldi Landsréttur gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir tveimur mönnum sem ákærðir hafa verið í hryðjuverkamálinu svokallaða. Úrskurður Landsréttar var birtur í gær, sama dag og Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði nýrri gæsluvarðhaldskröfu gagnvart mönnunum.

Trúði því að félaginn léti verða af voðaverkum

Í úrskurði héraðsdóms segir að maðurinn, sem ákærður hefur verið fyrir tilraun til skipulagningar hryðjuverka, hafi neitað allri aðild að undirbúningi hryðjuverka og að hann telji ummæli sín um voðaverk marklaus og sett fram í gríni. Hið sama eigi einnig við um öflun hans á upplýsingum og nálgunar efnis á netinu um fjöldadráp, sprengjugerð og vopnaframleiðslu

Í málinu liggur hins vegar fyrir framburður félaga mannsins sem ákærður hefur verið hlutdeild í meintum brotum mannsins. Félaginn segir manninn hafa verið að skoða hvernig ætti að smíða dróna og sprengjur, hann hafi verið kominn með GPS-staðsetningar og ætlað sér að smíða dróna. Hann hafi haft mikinn áhuga á drónaárásum.

Hann kvaðst trúa því að maðurinn kynni að framkvæma þessar hugmyndir sínar, þetta hafi ekki verið grín heldur stigi ofar að sögn félagans. Hann sagði að þessar hugmyndir mannsins hafi ágerst mjög síðustu vikurnar fyrir handtöku þeirra.

Hafi reynt að „kæla“ manninn niður

Í framburði félagans kemur meðal annars fram að maðurinn hafi ætlað að fara í vettvangsferð að skoða aðstæður þar sem Gleðigangan yrði gengin. Hann hafi ætlað að fremja voðaverk með því að aka vörubíl inn í mannþröngina. Félaginn kveðst þó ekki vita hvort maðurinn hafi í raun farið í vettvangsferðina.

Félaginn sagði manninum að vera ekki hvatvís og reyndi að „kæla“ hann niður, að því er segir í framburði hans. Þá hafi hann bent manninum á að tveir þekktir hryðjuverkamenn, sem þeir höfðu rætt, hafi verið í nokkur ár að skipuleggja sín hryðjuverk.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×