Menning

Fyrsta sýnis­hornið úr sýningunni Mátu­legir

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Leikritið er eftir Thomas Vinterberg og byggt á dönsku Óskarsverðlaunamyndinni DRUK.
Leikritið er eftir Thomas Vinterberg og byggt á dönsku Óskarsverðlaunamyndinni DRUK. Skjáskot

Mikil eftirvænting virðist vera fyrir leikritinu Mátulegir. Leikstjóri verksins er Brynhildur Guðjónsdóttir en frumsýningin verður 30. desember í Borgarleikhúsinu.

Nú þegar er búið að selja tæplega fjögur þúsund miða og er því uppselt á sautján sýningar samkvæmt upplýsingum frá Borgarleikhúsinu Með hlutverk fara þeir Halldór Gylfason, Hilmir Snær Guðnason, Jörundur Ragnarsson og Þorsteinn Bachmann. 

Áður hafði verið tilkynnt að Ingvar E. Sigurðsson tæki þátt í uppfærslunni en Þorsteinn kemur inn í hans stað. Verkið er sviðsútgáfa Thomas Vinterberg af kvikmynd hans DRUK sem unnið hefur til fjölda verðlauna.

Fæddir með of lítið áfengismagn

Í sýningunni Mátulegir ákveða fjórir menntaskólakennarar á miðjum aldri að gera tilraun til að sannreyna kenninguna um að manneskjan sé fædd með of lítið áfengismagn í blóðinu - þeir eru lífsleiðir, staðnaðir í starfi og á góðri leið með að sigla einkalífinu í strand.

„Getur verið að áfengi sé í raun svarið við vandamálum þeirra, svarið við lífsgátunni? Mátulegir er grátbroslegt verk um leitina að lífsneistanum, lífsfyllingunni og þá refilstigu sem sú leit getur leitt mann á,“ segir um verkið.

Hér fyrir neðan má sjá stutt sýnishorn sem unnið var af framleiðslufyrirtækinu Falcor.

Klippa: Mátulegir - Sýnishorn

„Það er óhætt að segja að það sé mikill spenningur fyrir komandi ævintýri. Þetta er óður til lífsins og neistans sem vekur mannsandann, en í tilraun sinni til að vera „mátulegir“ feta þeir félagar jafnframt einstigið milli gleði og sorgar,“ sagði Brynhildur um verkefnið í samtali við Vísi fyrr á þessu ári. 


Tengdar fréttir

Fjórtán frumsýningar í Borgarleikhúsinu

Þeir tvö hundruð starfsmenn, sem vinna í Borgarleikhúsinu munu hafa meira en nóg að gera í vetur því þar verða fjórtán leikrit frumsýnd, auk verka, sem hafa verið i gangi eins og Emil í Kattholti og Níu líf. Leikhússtjóri Borgarleikhússins segir leikhúsið ekki vera í samkeppni við Þjóðleikhúsið né önnur leikhús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×