Innlent

Hring­sóla utan við Al­þingis­húsið til að mót­mæla leigu­bíla­frum­varpi

Kjartan Kjartansson skrifar
Daníel Orri segir að leigubílarnir myndi óslitinn hring í kringum Dómkirkjuna og utan við Alþingishúsið.
Daníel Orri segir að leigubílarnir myndi óslitinn hring í kringum Dómkirkjuna og utan við Alþingishúsið. Aðsend

Hópur leigubílstjóra ekur nú bílum sínum í hringi utan við Alþingishúsið til þess að mótmæla leigubílafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem þar er til umræðu. Lögregla bannaði þeim þó að þeyta flautur sínar.

Frumvarpi innviðaráðherra um leigubílakstur er ætlað er að rýmka mjög þau skilyrði sem þarf til að reka leigubíl. Þar er meðal annars mælt með því að afnumdar verði takmarkanir á heildarfjölda starfsleyfa fyrir leigubílstjóra á Íslandi. 

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) lýsti því yfir í fyrra að reglur um leigubílaleyfi hér á landi væru ekki í samræmi við EES-samninginn. Núverandi löggjöf gerði nýjum rekstraraðilum erfitt eða ómögulegt að komast inn á markaðinn.

Hagsmunasamtök leigubílsstjóra eru alfarið á móti breytingunum. Í umsögnum þeirra um frumvarpið var því meðal annars haldið fram að það kynti undir ofbeldi gegn leigubílstjórum.

Þegar önnur umræða um frumvarpið hófst í kvöld dreif að hóp leigubílstjóra sem hóf að aka bílum sínum í kringum Dómkirkjuna fram hjá Alþingishúsinu. 

Að sögn Daníels Orra Einarssonar, formanns Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra, eru um tuttugu til þrjátíu bílar í hópnum. Lögregla hafi bannað leigubílstjórunum að flauta vegna hávaða sem það skapaði. 

Daníel Orri segir að verið sé að brenna bestu lagaumgjörð um starfsemi leigubíla í heiminum á sama tíma og stjórnvöld geti ekki spornað við ólöglegum, svörtum akstri svokallaðra skutlara sem dreifi jafnframt áfengi og fíkniefnum.


Tengdar fréttir

SUS-arar skutla djömmurum frítt og kalla eftir breytingum

Meðlimir Sambands ungra Sjálfstæðismanna ætla að keyra fólki í miðbænum ókeypis um í kvöld. Markmiðið er að varpa ljósi á það sem þau kalla fordæmalaust ástand á leigubílamarkaði hér á landi.

Telja kynt undir ofbeldi í garð leigubílstjóra

Bandalag íslenskra leigubifreiðarstjóra leggst alfarið gegn frumvarpi innviðaráðherra um leigubílakstur, sem ætlað er að rýmka mjög þau skilyrði sem þarf til að reka leigubíl. Formaður félagsins segir að beinlínis sé kynt undir ofbeldi í garð leigubílstjóra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×