Enski boltinn

Gerði Liver­pool mis­tök með því að kaupa rangan Ben­fi­ca mann?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darwin Nunez og  Goncalo Ramos fagna saman marki Benfica í Meistaradeildinni á móti Liverpool á síðasta tímabili.
Darwin Nunez og  Goncalo Ramos fagna saman marki Benfica í Meistaradeildinni á móti Liverpool á síðasta tímabili. Getty/Pedro Fiúza

Margir stuðningsmenn Liverpool óttast það að félagið hafi gert stór mistök á leikmannamarkaðnum í sumar.

Liverpool keypti þá Darwin Nunez frá Benfica og gæti á endanum þurft að borga 85 milljónir punda fyrir hann.

Liðsfélagi hans hjá Benfica er Goncalo Ramos sem sló í gegn með portúgalska landsliðinu á HM í Katar í gær.

Það er því ekkert skrýtið að sumir hafi velt því fyrir sér hvort að Jürgen Klopp hafi valið rangan Benfica framherja.

Ramos fékk óvænt tækifæri í byrjunarliðinu í gærkvöldi á kostnað Cristiano Ronaldo og launaði landsliðsþjálfaranum traustið með því að skora þrennu og leggja upp eitt mark að auki.

Með þessu afreki varð hinn 21 árs gamli Ramos yngsti leikmaðurinn til að skora þrennu á HM síðan að Florian Albert skoraði þrennu fyrir Ungverja á HM í Síle 1962.

Darwin Nunez tókst ekki að skora fyrir Úrúgvæ á öllu heimsmeistaramótinu en Ramos var með þrjú mörk í fyrsta byrjunarliðsleiknum sínum.

Nunez hefur ekki farið vel með færin í búningi Liverpool og þrátt fyrir augljóslega líkamlega hæfileika eins og hraða, styrk og tækni þá er hann oft frekar milli flækjufótur fyrir framan markið.

Nunez hefur reyndar skorað níu mörk í átján leikjum með Liverpool og hann er líka bara 23 ára gamall. Oft tekur það tíma fyrir menn að læra að spila undir Klopp og þar liggur von stuðningsmanna Liverpool að hann blómstri með liðinu eftir áramót.

Ramos hefur aftur á móti verið frábær með Benfica á tímabilinu og er sem dæmi með fimm mörk í Meistaradeildinni. Það má búast við því að frammistaða hans í gær hafi ýtt undir áhuga stórliða Evrópu á kappanum.

Benfica hefur grætt mikið á leikmannasölum síðustu ár og ætti að fá vel inn á bankareikning félagsins selji félagið Ramos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×