Innlent

Einn eftir í gæslu­varð­haldi vegna á­rá­sinnar á Banka­stræti Club

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir rannsókn málsins miða þokkalega. 
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir rannsókn málsins miða þokkalega. 

Öllum nema einum hefur verið sleppt úr gæsluvarðhaldi vegna hnífstunguárásarinnar á Bankastræti Club en þrjátíu eru með stöðu sakbornings í tengslum við málið. Rannsókn lögreglu miðar nú að því að komast að tilefni árásarinnar.

Rannsókn lögreglu á árásinni á Bankastræti Club þann 18. nóvember síðastliðinn miðar þokkalega að sögn Margeirs Sveinssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

„Við erum bara að reyna að vinna að því að átta okkur á hvert tilefni árásarinnar var, annað er komið nokkuð í land,“ segir Margeir í samtali við fréttastofu en verið er að skoða og fara yfir gögn málsins, sem að sögn Margeirs getur tekið ansi góðan tíma.

Fimm voru í gæsluvarðhaldi vegna rannsókn málsins í upphafi síðustu viku en fjórir þeirra hafa losnað úr varðhaldi síðan og er aðeins einn eftir. Sá er í varðhaldi til 22. desember.

Lögregla lagði hald á töluvert af vopnum í tengslum við rannsókn á árásinni í síðasta mánuði og voru á tímabili á annan tug í gæsluvarðhaldi.

Þá var tilkynnt um hótanir og skemmdarverk skömmu eftir árásina en Margeir segir ekki hafa borið á slíkum hótunum nýlega. „Við teljum okkur hafa komið í veg fyrir þetta og náð að stoppa þetta,“ segir Margeir.

Uppfært 13:35:

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar kom fram að sá yngsti sem hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald hafi verið sautján ára gamall og þar vísað til tilkynningar frá lögreglu þann 23. nóvember en samkvæmt nýjustu upplýsingum frá lögreglu er það rangt. Umræddur aðili hafi verið handtekinn en honum sleppt eftir skýrslutöku og ekki farið fram á gæsluvarðhald. 


Tengdar fréttir

Viðbrögðin megi ekki verða verri en vandamálið

Borgarstjóri segist sleginn eftir hnífstunguárás á Bankastræti club fyrir viku. Nýr veruleiki blasi við en ekki megi fara offari í viðbrögðum. Starfsmanni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið vikið frá störfum fyrir að leka myndbandi af árásinni. Þá eru nú fimm sakborningar í haldi eftir að einum var sleppt í dag og varðhald framlengt yfir fjórum.

Gæslu­varð­hald fjögurra fram­lengt og einum sleppt

Gæsluvarðhald yfir fjórum, sem taldir eru tengjast árásinni á Bankastræti club fyrir tíu dögum, var framlengt í dag. Einum var sleppt úr haldi og nú sitja alls fimm í gæsluvarðhaldi í tengslum við árásina.

Vikið úr starfi fyrir að dreifa mynd­skeiðum frá Banka­stræti Club

Starfsmanni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið vikið úr starfi fyrir að hafa staðið að dreifingu á myndskeiði af hnífstunguárásinni á Bankastræti Club fyrr í mánuðinum. Talið er að starfsmaðurinn hafi ekki ætlað að myndböndin færu til fjölmiðla. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×