Innlent

Sögu­leg skýring á ó­heppi­legri stað­setningu hausa­þurrkunar Sam­herja

Bjarki Sigurðsson skrifar
Höfðstöðvar Samherja á Dalvík að Ránarbraut.
Höfðstöðvar Samherja á Dalvík að Ránarbraut.

Fyrir liggur að staðsetning hausaþurrkunar Samherja á Dalvík er óheppileg og krefjandi vegna nálægðar við íbúðarbyggð. Sögulegar skýringar eru á staðsetningunni. Samherji hefur tekið ráðstafanir til að minnka lykt frá þurrkuninni.

Þetta kemur fram í svarbréfi starfsmanna framkvæmdasviðs Dalvíkurbyggðar og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra (HNE). Svarbréfið var gert eftir kvörtun Kristjáns Vigfússonar undan megnri ólykt frá þurrkuninni. 

Meðal þess sem Kristján kvartaði yfir var að lyktin skerði loftgæði og lífsgæði íbúa Dalvíkur. Hausaþurrkunin er staðsett við Ránarbraut, nálægt höfninni í norðurhluta bæjarins. Kristján lagði fram fimmtán spurningar sem hann óskaði eftir því að bæjarstjóri myndi svara. 

Í svörum Dalvíkurbyggðar segir að HNE hafi gert kröfur um ráðstafanir til að draga úr lyktarmengun frá hausaþurrkuninni og að Samherji hafi brugðist við þeim. Meðal þess sem fyrirtækið hefur gert til að draga úr lykt er að bæta verkferla ferskleika hráefnis, bætt vinnuferla og tekið í notkun búnað sem dregur úr lykt. 

Kristján spyr hvort það hafi eitthvað verið rætt hvort staðsetning lyktarmengandi starfsemi sé viðeigandi fyrir íbúa í næsta nágrenni. Í svarinu segir að það liggi fyrir að staðsetning hausaþurrkunarinnar sé óheppileg og krefjandi vegna nálægðar við íbúðabyggð. Í samtali við Vísi fyrr á árinu lýsti einn íbúi Dalvíkur lyktinni þannig að hún væri svipuð og ef einhver myndi drepa fisk og geyma hann undir sófanum sínum í hálfan mánuð. 

Þá séu sögulegar skýringar á nálægðinni, að um sé að ræða hafnsækna starfsemi og uppbyggingu íbúðabyggðar sem hefur átt sér stað yfir langan tíma. 

Lyktin sem kemur frá hausaþurrkuninni stigmagnast við einstaka bilanir eða frávik í starfsemi þar. Samherji er með eigin viðbragðsáætlun sem fer í gang við bilun.

Lyktin er metin fyrst og fremst með lyktarskyni eftirlitsmanna en einnig er horft til upplifunar almennings. Þá eru til mælikvarðar fyrir ferskleika hráefnisins sem HNE notast við. Ekki er haldið utan um lyktarútbreiðslu með tölvulíkani þar sem sveitarfélagið gerir ekki kröfu til þess. 

Tengd skjölAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.