Lífið

Rúrik krefst milljóna vegna þátt­tökunnar í Let‘s Dance

Atli Ísleifsson skrifar
Rúrik Gíslason var sigur úr býtum í dansþættinum Let‘s Dance í Þýskalandi árið 2021.
Rúrik Gíslason var sigur úr býtum í dansþættinum Let‘s Dance í Þýskalandi árið 2021. Vísir/Baldur Hrafnkell

Rúrik Gíslason, fyrrverandi knattspyrnumaður og áhrifavaldur, hefur höfðað mál á hendur þýsku umboðsskrifstofunni Top­as In­ternati­onal. Vill Rúrik meina að skrifstofan skuldi sér 45 þúsund evrur, um sjö milljónir króna, vegna þátttöku sinnar í raunveruleikaþáttunum Let‘s Dance í Þýskalandi.

Rheinische Post greinir frá þessu, en það var mbl sem greindi fyrst íslenskra miðla frá málinu.

Rúrik bar sigur úr býtum í Let‘s Dance í Þýskalandi árið 2021, ásamt dansfélaga sínum Renötu Lusin. Vakti það athygli að parið náði fullu húsi stiga hjá dómnefndinni þegar í þriðja þætti þáttaraðarinnar.

Í frétt Rheinische Post kemur fram að Topas International sé á því að Rúrik hafi ekki fengið greitt að fullu þar sem hann hafi ekki staðið við gerða auglýsingasamninga í tengslum við þáttagerðina. Kemur fram að málið hafi verið tekið fyrir í dómstól í Wuppertal í vesturhluta Þýskalands í gær.

Lögmaður Rúriks óskaði hins vegar þegar í stað eftir því að málinu yrði frestað þannig að málsaðilar gætu náð sáttum í málinu.

Rúrik var ekki viðstaddur þegar málið var tekið fyrir í Wuppertal í gær. Hann var staddur í Miami í Bandaríkjunum fyrr í vikunni þar sem hann sótti Art Basellistahátíðina á Miami Beach.

Rúrik var aftur þátttakandi í þýsku raunveruleikasjónvarpi fyrr á þessu ári, en þá var hann einn þátttakenda í sjöttu þátttaröðinni af þýsku útgáfunni af The Masked Singer. Þar var hann í búningi górillu og hafnaði í sjötta sæti. 

Rúrik söng í þáttunum lög á borð við I Want It That Way með Backstreet Boys, Basket Case með Green Day  og Livin‘ on a Prayer með Bon Jovi.


Tengdar fréttir

Rúrik var syngjandi górilla í Þýskalandi

Rúrik Gíslason tók nýlega þátt í þýsku útgáfunni af þáttunum The Masked Singer. Á Instagram-síðu sinni segist hann vera þakklátur fyrir reynsluna sem hann öðlaðist í keppninni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×