Fótbolti

Neville gapandi hissa á Thiago Silva

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brasilíska vörnin með Thiago Silva i broddi fylkingar virkar ógnarsterk.
Brasilíska vörnin með Thiago Silva i broddi fylkingar virkar ógnarsterk. getty/Marvin Ibo Guengoer

Gary Neville, sparkspekingur og fyrrverandi landsliðsmaður Englands, botnar ekkert í því hvernig brasilíski varnarmaðurinn Thiago Silva fer að því að spila jafn vel og hann gerir, 38 ára að aldri.

Silva stóð vaktina í vörn Brasilíu sem vann Sviss, 1-0, í öðrum leik sínum í G-riðli á HM í Katar. Brassar sigruðu Serba, 2-0, í fyrsta leik sínum á mótinu. Í hvorugum leiknum  náðu andstæðingarnar skoti á mark Brasilíu. Aðeins eitt lið hefur afrekað það síðan talningar hófust 1966. Það var Frakkland 1998 sem varð heimsmeistari.

Eftir leikinn gegn Sviss hrósaði Neville Silva í hástert og sagðist ekki skilja hvernig hann gæti spilað eins og hann gerði kominn nálægt fertugu.

„Þeir fara framarlega á völlinn. Ég skil ekki hvernig Thiago Silva gerir það á þessum aldri. Þegar ég hugsa til baka til þess þegar ég var að spila var það erfiðasta sem þú gerðir að komast fram fyrir sóknarmanninn sem þú varst að passa. Hann er enn að gera það kominn á þennan aldur. Þetta er ótrúlegt,“ sagði Neville.

Brasilía er komin í sextán liða úrslit og örugg með að vinna G-riðil. Brassar mæta liðinu sem endar í 2. sæti H-riðils í sextán liða úrslitum. Það verða annað hvort Ganverjar, Úrúgvæar eða Suður-Kóreumenn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.