Í samtali við fréttastofu á dögunum lofaði Georg Hólm, bassaleikari sveitarinnar, „alvöru sjóvi“ og miðað við viðbrögð tónleikargesta stóð sveitin við loforð Georgs. Þá sagði hann að það væri öðruvísi að koma heim til Íslands að spila á tónleikum. „Það eru aðeins meiri taugar,“ sagði hann.

Ljóst er að taugarnar skemmdu ekki fyrir hljómsveitarmeðlimum enda hefur sveitin verið kölluð sú besta í heiminum og „náttúruafl og viðundur“ af netverjum sem sóttu tónleikana.

Þá segir viðmælandi Vísis sem vann við öryggisgæslu á tónleikunum að fullt hafi verið út að dyrum og að liðið hafi yfir nokkra í hamaganginum og hitanum. Annars hafi tónleikarnir farið vel fram.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, lét sig ekki vanta á tónleikana og myndaði Sigur Rós og tónleikargesti.



