Innlent

Réðst á þroska­skertan mann vegna á­­greinings um al­­mennings­bekk

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Árásin átti sér stað á Hamarskotstúni á Akureyri í júní síðastliðnum.
Árásin átti sér stað á Hamarskotstúni á Akureyri í júní síðastliðnum. Vísir/Tryggvi

Karlmaður hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast þroskaskertan mann vegna ágreinings um almenningsbekk. Hann var sakfelldur fyrir að hafa sparkað fótunum undan manninum með þeim afleiðingum að hann féll í jörðina og axlarbrotnaði.

Atvikið átti sér stað hinn 10. júní síðastliðinn en Héraðsdómur Norðurlands eystra kvað upp dóm í málinu fyrir helgi.

Atvik voru þau að ákærði hafði fært almenningsbekk af Hamarskotstúninu á Akureyri og sett hann á göngustíg sem liggur um svæðið. Brotaþoli, sem er þroskaskertur, gerði athugasemd við þetta og ýtti við ákærða sem féll á bekkinn.

Við það reiddist ákærði, stóð upp af bekknum og var upphaflega sagður hafa kýlt brotaþola í andlitið. Því næst hafi hann sparkað undan brotaþola fótunum með þeim afleiðingum að hann datt í jörðina. Brotaþoli axlarbrotnaði og hlaut brotna framtönn og skrámur við árásina.

Við fyrirtöku málsins breytti ákæruvaldið ákærunni á þann veg að tekið væri út að ákærði hafi kýlt brotaþola í andlitið. Maðurinn játaði brotið eftir breytingu ákæruvaldsins.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði hafi gengist undir sátt fyrir vörslur fíkniefna fyrr á árinu. Dómari taldi honum það til hegningarauka og taldi hæfilega refsingu þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Ákærða ber enn fremur að greiða brotaþola 600 þúsund krónur í miskabætur, rúmar 200 þúsund krónur vegna fjártjóns og tæpar 600 þúsund krónur í sakarkostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×