Innlent

Sex­tíu sæta gæslu­varð­haldi og kerfið þolir ekki meira

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir gríðarlega mikið álag að vera með fimmtán einangrunarfanga.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir gríðarlega mikið álag að vera með fimmtán einangrunarfanga. Vísir/Vilhelm

Sextíu einstaklingar sæta nú gæsluvarðhaldi en fjöldinn er að jafnaði um tuttugu. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir fjöldann mega rekja til stórra mála sem komið hafa upp á síðustu vikum; fíkniefnamál, ofbeldismál og nú síðast hópárásin á Bankastræti Club síðastliðinn fimmtudag.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

„Það er auðvitað gríðarlega mikið álag að vera með fimmtán ein­angr­un­ar­fanga. Þetta kall­ar á meiri mannafla og skipu­lögð vinnu­brögð. Því þarna þarf að tryggja rann­sókn­ar­hags­muni; að fang­arn­ir hitt­ist ekki en þó að rétt­inda þeirra til úti­vist­ar sé gætt. Þetta er býsna flókið en geng­ur upp,“ segir Páll.

Hann segir hópinn fjölbreyttan en um sé að ræða Íslendinga og útlendinga, karla og konur, ófatlaða og fatlaða. Fjöldinn sé svo mikill að fangelsiskerfið ráði í raun ekki við að fleiri stór mál komi upp á næstu dögum.

Páll segist þó eiga von á því að álaginu létti eitthvað á næstunni.

„Þetta reyn­ir gríðarlega á kerfið. Þetta er á sama tíma og við erum að reyna að fækka tíma­bundið í fang­els­un­um til þess að geta unnið inn­an þeirra fjár­heim­ilda sem við eig­um að vinna eft­ir.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×