Innlent

Hæsti stiga­bíll landsins „al­gjör bylting“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sem betur fer er enginn lofthræddur í Slökkviliði Akraness.
Sem betur fer er enginn lofthræddur í Slökkviliði Akraness. egill aðalsteinsson

Hæsti stigabíll landsins var tekin í notkun á Akranesi og Hvalfjarðarsveit í haust. Stigi bílsins nær upp í 42 metra hæð og er sá fyrsti sem nær upp í hæstu byggingar bæjarfélagsins. Slökkviliðsstjórinn segir tækið algjöra byltingu.

Stigabíllinn leysti af hólmi eldri bíl sem var orðin úreltur. Stigi bílsins nær upp í 42 metra hæð og er með körfu sem ber fimm manns.

„Hann fer alla leið eins og við segjum. Hann er í svona 56 til 57 sekúndur frá því að við förum í körfuna og upp í efstu stöðu. Við getum sett börur til að bjarga fólki. Svo fer hann niður fyrir sig, t.d. niður í bryggju þannig það er nýr möguleiki,“ segir Sigurður Þór Elísson, eldvarnareftirlitsfulltrúi hjá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar.

„Hann gerir okkur kleift að ná upp í þær byggingar sem við höfum ekki náð upp í áður og veitir gríðarmikið öryggi fyrir íbúa,“ segir Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri á Akranesi og Hvalfjarðarsveit.

Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri á Akranesi og Hvalfjarðarsveit, og Sigurður Þór Elísson, eldvarnareftirlitsfulltrúi hjá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveit.Vísir/Egill

Ekki hefur reynt á bílinn, sem betur fer, en hann hefur verið notaður til æfinga.

Það er ekkert leiðinlegt á þessum æfingum? 

„Nei það er mikill spenningur fyrir æfingunum og allir vilja fara í hæstu stöðu,“ segir Jens.

Karfan tekur fimm manns.egill aðalsteinsson

Og þá er okkur ekkert að vanbúnaði. Við Egill Aðalsteinsson hoppum um borð með Jens slökkviliðsstjóra. Þeir sultuslakir. Fréttamaðurinn eitthvað minna.

Stigi bílsins nær upp fyrir hæstu byggingu Akraness sem er 35 metrar að hæð.

Þannig tækið sem þið áttuð fyrir þetta það dugði ekki til? 

„Nei það var 28 metra bíll þannig að þetta er algjör bylting,“ segir Jens.

egill aðalsteinsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×