Innlent

Bein útsending: Kvöldfréttir Stöðvar 2

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Margrét Helga Erlingsdóttir les fréttir í kvöld.
Margrét Helga Erlingsdóttir les fréttir í kvöld. Vísir/arnar

Deilur milli hópa tengdum hnífstunguárásinni á Bankastræti club hafa stigmagnast eftir að árásin var gerð á fimmtudag. Dæmi eru um að menn hafi brotið rúður og að bensínsprengju hafi verið kastað í hús, sem skapi hættu fyrir almenning. Við ræðum við aðstoðaryfirlögregluþjón um málið í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.

Maðurinn sem lést í rafhlaupahjólaslysi við Barónsstíg í gær var erlendur karlmaður á þrítugsaldri, búsettur á Íslandi. Við fjöllum um þennan harmleik í miðborginni og sýnum frá minningardegi fórnarlamba umferðarslysa, sem bar upp í dag. Kona sem varð valdur að banaslysi á barni fyrir 30 árum lýsir erfiðu lífi sem hefur litast af sektarkennd.

Þá hittum við fimmtuga konu sem reyndi að svipta sig lífi vegna heilsuleysis og stanslausra verkja. Hún segir nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsmenn kynni sér einkenni breytingaskeiðs. Hún gekk á milli lækna í sjö ár og þurfti hálfpartinn að sannfæra sérfræðinga um að skrifa upp á hormónin sem breyttu lífi hennar. Við heyrum áhrifaríka sögu hennar í kvöldfréttum.

Við ræðum einnig við Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra um sögulegan samning sem náðist á COP27 í Egyptalandi í gærkvöldi. Svandís er nýkomin heim af ráðstefnunni og lýsir blendnum tilfinningum í garð samþykktarinnar. 

Og svo er það auðvitað hið umdeilda heimsmeistaramót karla í knattspyrnu, sem hófst í Katar í dag. Við förum ítarlega ofan í aðdraganda mótsins, meint mannréttindabrot og spillingu sem litað hafa alla umræðu um þennan stórviðburð í knattspyrnuheiminum. Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu 18:30. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×