Bruninn átti sér stað um helgina í bílskúr Leno. Hann hlaut alvarleg brunasár á vinstri hlið andlitsins en eyra hans og auga sluppu. Leno segist ætla að taka næstu tvær vikur í að jafna sig.
Bílskúr hans er staðsettur í Burbank í Los Angeles en Leno á meira en 180 ökutæki. Hann hefur safnað þeim í mörg ár. Bandaríski fjölmiðillinn TMZ ræddi við Leno en hann segist hafa verið að vinna við að laga White Steamer-bíl sinn þegar eldsvoðinn hófst.

Eldsneytisleiðsla bílsins var stífluð og var Leno að laga hana. Við viðgerðina sprautaðist eldsneyti á andlit hans og á nánast sama tíma varð neisti við leiðsluna. Við það kviknaði í Leno.
Hann var heppinn að vinur hans Dave var með honum. Sá gat slökkt eldinn stuttu eftir að hann kviknaði og bjargaði þannig mögulega lífi Leno. Hann verður á spítala næstu fimm til tíu dagana.