Innlent

Nokkur fjöldi í haldi lög­reglu á flug­vellinum grunaður um tengsl við glæpa­sam­tök

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli vegna málsins.
Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli vegna málsins. Vísir/Vilhelm

Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli þegar meðlimir vélahjólaklúbba komu til landsins. Nokkur fjöldi sem talinn er tengjast slíkum klúbbum er í haldi lögreglu á flugstöðinni á meðan er til skoðunar hvort eigi að hleypa þeim inn í landið eða vísa þeim á brott.

Í samtali við fréttamann segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á löggæslusviði lögreglustjórans á Suðurnesjum málið vera til skoðunar. Enginn hafi verið handtekinn á landamærunum. Hann vildi hvorki tjá sig um það hve margir væru í haldi né hvaðan flugvélin kom.

„Við virkjuðum verklag sem snýr að vélhjólaklúbbum eða gengjum í dag vegna komu einstaklinga sem að tengjast vélhjólaklúbbum og erum bara að skoða þetta mál eins og staðan er núna með tilliti til þess hvort að það verði farið í frávísunarferli,“ segir Ásmundur.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu einstaklinga úr sama hóp á Reykjanesbraut og handtók þá í kjölfarið. Ásmundur segir mál utan flugstöðvarinnar til meðferðar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir Lögregluna á Suðurnesjum hafa notið aðstoðar sérsveitar og lögreglumanna af höfuðborgarsvæðinu við aðgerðirnar.

Málið sé í „skoðunarfasa“, verið sé að afla gagna og meta hvernig verði farið í málið. Einnig sé verið að skoða hvort óskað verði eftir áhættumati hjá ríkislögreglustjóra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×