Lífið

13 dagar í Idol: Manst þú eftir fé­lögunum Arnari og Gunnari?

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Félagarnir Arnar og Gunnar slógu eftirminnilega í gegn í þriðju þáttaröð af Idol.
Félagarnir Arnar og Gunnar slógu eftirminnilega í gegn í þriðju þáttaröð af Idol.

„Þið tveir ættuð eiginlega bara að flétta hárið ykkar saman og labba eins og síamstvíburar í einni og sömu lopapeysunni í leiklistarskólann.“ Þetta hafði Idol dómarinn Páll Óskar að segja eftir áheyrnarprufu félaganna Arnars og Gunnars.

Þeir Arnar og Gunnar tóku þátt með frumsamda laginu Disco Nights. Var þetta í fyrsta skipti sem tveir keppendur tóku þátt undir sama númeri.

Þrátt fyrir að flutningur þeirra hafi ekki dugað til þess að koma þeim í gegnum fyrstu áheyrnarprufurnar, vöktu þeir félagar mikla athygli. Dómarinn Páll Óskar hvatti þá félaga til þess að skrá sig í leiklistarskóla.

„Það er svo gaman að horfa á ykkur og fylgjast með ykkur og þessi frumsömdu lög ykkar eru æðisleg. En því miður, nei,“ sagði hann.

Á úrslitakvöldinu var svo ákveðið að fá tvo eftirminnilegustu keppendur þáttaraðarinnar til þess að stíga á stokk og var atriði Arnars og Gunnars annað þeirra. Fluttu þeir lagið Disco Night í fullri lengd ásamt frumsaminni dansrútínu og vakti það mikla lukku.

Hækkið nú vel í græjunum og rifjið upp þennan eftirminnilega flutning.

Klippa: Arnar og Gunnar - þriðja þáttaröð Idol

Idol verður á Stöð 2 á föstudagskvöldum í vetur. Fleiri hundruð söngvarar spreyttu sig í áheyrnaprufunum en að lokum mun einn standa uppi sem sigurvegari. Fyrsti þáttur fer í loftið föstudagskvöldið 25. nóvember. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×