Innlent

Flensan farin að láta á sér kræla

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu segir töluvert um veikindi þessa dagana.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu segir töluvert um veikindi þessa dagana. Vísir/Sigurjón

Árleg inflúensa er farin að láta á sér kræla en hún ásamt fleiri haustpestum hefur skapað nokkuð álag hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Inflúensa gengur að jafnaði árlega yfir hér á landi. Kórónuveirufaraldurinn hafði þó nokkur áhrif á hana en veturinn 2020-2021 greindist engin inflúensa hér á landi. Síðasta vetur var hún svo seinna á ferðinni en venjulega. Nú hefur flensan hins vegar stungið sér niður hér á landi.

„Hún er aðeins farin að greinast. Það er ekki komið mjög mikið en það er búið að greina hérna flensu alveg þannig að hún er komin þó það sé ekki flensufaraldur,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hún segir töluvert álag á heilsugæslugæslunni þessa dagana.

„Það er náttúrulega bara mjög mikið af haustpestum. Bara kvefpestum og efri loftvegasýkingum ýmsum sem að við erum að sjá og svo eru alltaf einstaka magapestir í gangi. Þannig að það er alveg nóg af verkefnum.“

Landsmenn hafi að miklu leyti hafa sloppið við þessar pestar á meðan að kórónuveirufaraldurinn gekk yfir

„Við höfum passað okkur svo vel síðustu tvö þrjú árin. Það er þannig að þessar venjulegu umgangspestir við urðum minna vör við þær í Covidtímanum. Þannig að þá eru margir ekki varðir og eru móttækilegri fyrir sýkingum nú í ár.“

Ekki sé of seint að bólusetja sig gegn inflúensunni en erfitt sé að segja til um hversu skæð flensan verður í ár.

„Það fer eftir því hvaða stofnar eru og svona en vissulega erum við búin að passa okkur vel síðustu tvö árin. Þannig það er ekkert ólíklegt að við finnum fyrir henni í vetur. Þannig það skiptir máli að þessar hefðbundu sóttvarnir sem við tileinkuðum okkur í Covidinu, þær gilda alveg áfram.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×