Í borgarstjórn á þriðjudaginn lagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri fram tillögu um gjaldskrá Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023. Þar má finna verðlagshækkanir sem taka gildi um áramótin.
Fram kemur í tillögunni að þær séu í samræmi við þjóðhagsspá Hagstofu og verðlagsforsendur fjárhagsáætlunar borgarinnar fyrir árið 2023. Tillagan var samþykkt og mun því flest þjónusta hækka í verði á næsta ári.
Það mun til dæmis kosta meira fyrir borgarbúa að henda rusli. Árgjaldið á 240 lítra tunnu hækkar um 6.500 krónur og mun á næsta ári kosta 40.700.
Skólamáltíðir dýrari
Fimm daga vistun á frístundaheimili hækkar um tæpar 800 krónur og mun kosta 16.537 krónur. Þá verður dýrara fyrir börn að borða heitar máltíðir í grunnskólum borgarinnar. Mánaðaráskrift hækkar um 549 krónur og mun kosta 11.744. Og leikskólagjöldin, þau hækka um 4,9 prósent.
Árskort í sund fyrir fullorðið fólk mun hækka um tvö þúsund krónur og kostar á næsta ári 41 þúsund. Stakur miði í sund hækkar líka og mun kosta 1.210. Þá verður ekki gott að gleyma handklæðinu þegar komið er á sundstað á næsta ári því leiga á því hækkar og mun kosta 720 krónur.
Dýrara að skoða selina
Góður dagur í fjölskyldu- og húsdýragarðinum verður dýrari eftir áramót. Aðgangur fyrir börn yngri en tólf ára hækkar um tæp 34 prósent og mun kosta 1.050. Aðgangur fyrir fullorðna hækkar um rúm 46 prósent og mun kosta 1.500.

„Ég er mjög ósátt við þetta. Við lögðum það til á þriðjudaginn í fyrri umræðu fjárhagsáætlunar að frysta sérstaklega þær gjaldskrárhækkanir sem snúa að sumar- og vetrarstarfi frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva,“ sagði Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Hún segir ekki langt frá síðustu verðhækkunum, þær hafi verið öðru hvoru megin við sumarið.
„Það er eins og við vitum ekki gott ástand í samfélaginu núna. Það er um 8,8 prósent verðbólga og þetta fer auðvitað bara beint út í verðlagið og kemur sem allra verst niður á þeim sem minnst mega sín.“