Innlent

Einar mestu hagræðingaraðgerðir frá hruni

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Einar segir nauðsynlegt að hagræða í rekstrinum.
Einar segir nauðsynlegt að hagræða í rekstrinum. Vísir/Arnar

Reykjavíkurborg mun ráðast í einar mestu hagræðingaraðgerðir frá hruni til að mæta hallarekstri. Formaður borgarráðs segir að tryggja þurfi sjálfbæran rekstur og skapa svigrúm til fjárfestinga án endalausrar lántöku.

Ný fjármálastefna var lögð fyrir borgarstjórn í dag ásamt fjárhagsáætlun til næstu fimm ára. Samkvæmt áætluninni verður ráðist í miklar hagræðingar vegna hallareksturs borgarinnar.

„Þegar ég fór í framboð var hallinn 3,8 milljarðar á síðasta ári. Núna er útkomuspáin að hann verði 15,3 milljarðar. Það gengur ekki lengur, það þarf að taka á undirliggjandi rekstri A-hlutans og fara í aðhald. Það erum við að gera,“ sagði Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs.

Einar segir að ekki verði ráðist í neinar hópuppsagnir en svokölluð aðhaldskrafa verður sett á öll svið sem þýðir að ekki er gert ráð fyrir ráðningum í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til.

„Vegna þess að við höfum sé það að launakostnaður sem hlutfall af tekjum hefur vaxið mjög á undanförnum árum og starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað talsvert umfram lýðfræðilega þróun.“

Hlífa skólunum

„Við ætlum að hlífa skólunum og þeim starfsstöðvum þar sem undirmönnun ríkir en allt annað þurfum við að rýna vel og meta hvort ráðið verði í störfin.“

Hann segir að ná þurfi stöðugildunum niður í það sem teljist sjálfbært. Hagræðingin verður að sögn Einars verkefnamiðuð þar sem gerður verður greinarmunur á grunnþjónustu borgarinnar og annarri þjónustu.

„Það er mikilvægt að taka erfiðar ákvarðanir núna strax í upphafi kjörtímabilsins. Þetta er samt sem áður enginn gríðarlegur niðurskurður. Þetta er hagræðing og aðhald, skynsamlega sett fram með þeim áherslum að við verndum framlínuþjónustuna þannig að þetta bitni sem minnst á borgarbúum. Við erum aðallega að rýna inn á við. Við erum að skera niður inn á við og það er algjört lykilatriði.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.