Innlent

Engir nýir starfs­menn nema nauð­syn beri til

Bjarki Sigurðsson skrifar
Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og oddviti Framsóknarflokksins, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Samfylkingarinnar. Í dag kynnti meirihluti Framsóknar, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata fjárhagsáætlun sína.
Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og oddviti Framsóknarflokksins, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Samfylkingarinnar. Í dag kynnti meirihluti Framsóknar, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata fjárhagsáætlun sína. Vísir/Stöð 2

Útkomuspá á rekstri A-hluta borgarinnar gerir ráð fyrir rúmlega fimmtán milljarða króna halla í ár. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan verði orðin jákvæð frá og með árinu 2024. Fyrsta fjárhagsáætlun meirihluta borgarstjórnar var kynnt í dag. 

Í áætluninni er gert ráð fyrir áframhaldandi fullri fjármögnun á framlínuþjónustu en aðhaldi í öðrum rekstri borgarinnar. Með því verður hægt að koma til móts við áherslur Græna plansins um græna og vaxandi borg að sögn borgarstjóra.

Fjármálastefna borgarinnar var einnig lögð fyrir borgarstjórn í dag en hún byggir að miklu leiti á sjálfbærnigildum. Meðal meginmarkmiða í fjármálastjórn borgarinnar verður að tryggja fulla fjármögnun á rekstri málaflokks fatlaðs fólks, að ná fram hagræðingu í rekstri og lækkun launaútgjalda í hlutfalli af tekjum og að uppbygging á nýjum skólum og leikskólum verði í forgangi. 

Afkoma af rekstri A-hluta borgarinnar fyrri hluta ársins 2022 var talsvert lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir, einkum vegna verðbólgu og vanfjármögnun á rekstri málaflokks fatlaðs fólks. Útkomuspá gerir ráð fyrir halla upp á 15,3 milljarða króna. Þá er gert ráð fyrir því að rekstrarniðurstaða borgarinnar verði orðin jákvæð frá og með árinu 2024.

Í fjárhagsáætluninni er aðhalds í framlögum til málaflokka gætt og sett fram áætlun um aðgerðir með hliðsjón af markmiði fjármálastefnu um jafnvægi í rekstri. Á næstu misserum er ekki gert ráð fyrir ráðningum í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til. 

Nánar má lesa um fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2023 hér og fimm ára áætlun borgarinnar hér. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×