Innlent

Unnur er á­hrifa­mesta vísinda­kona Evrópu

Árni Sæberg skrifar
Unnnur Þorsteinsdóttir er meðal áhrifamestu vísindakvenna heims.
Unnnur Þorsteinsdóttir er meðal áhrifamestu vísindakvenna heims. Kristinn Ingvarsson

Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, hefur verið útnefnd áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum.

Unnur trónir á toppi nýs lista vísindamiðilsins Research yfir áhrifamestu vísindakonur Evrópu. Listinn byggir á greiningu á rannsóknaframlagi yfir 160 þúsund vísindakvenna. 

Í tilkynningu á vef Háskóla Íslands segir að listinn sé sá fyrsti sinnar tegundar og að með honum vilji forsvarsmenn Research draga fram afrek kvenna í geira þar sem karlmenn hafa um langt skeið verið í miklum meirihluta. Þá sé honum ætlað að hvetja vísindakonur áfram í sínum störfum og ungar konur til þess að helga sig vísindum.

Nýráðinn forseti Heilbrigðisvísindasviðs

Unnur var ráðin forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands í sumar eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu frá síðustu aldamótum. Þar helgaði hún sig erfðarannsóknum, meðal annars tengdum hjarta og æðasjúkdómum, efnaskiptasjúkdómum og krabbameinum. Þá hefur hún starfað sem rannsóknarprófessors við Læknadeild Háskóla Íslands meðfram störfum hjá ÍE frá árinu 2007.

Listi Research byggir á gögnum úr Google Scholar og Microsoft Academic Graph. Gögnin sýna að á tímabilinu sem var undir hefur verið 190 þúsund sinnum vísað í rannsóknir Unnar og fengið ríflega 460 greinar birtar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×