Fótbolti

Rúnar Alex varði og varði frá stjörnum Gala­tasaray og setti met í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson hefur leikið nítján landsleiki.
Rúnar Alex Rúnarsson hefur leikið nítján landsleiki. vísir/hulda margrét

Enginn markvörður í tyrknesku úrvalsdeildinni í fótbolta hefur varið fleiri skot í einum leik á tímabilinu en Rúnar Alex Rúnarsson gerði gegn Galatasaray í gær.

Rúnar átti stórleik í marki Alanyaspor þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við stórlið Galatasaray á útivelli í gær.

Vesturbæingurinn varði hvorki fleiri né færri en tíu skot í leiknum sem er það mesta sem nokkur markvörður hefur varið í tyrknesku úrvalsdeildinni í vetur. Hann varði meðal annars frábærlega frá Emin Bayram þegar hann slapp í gegn á þriðju mínútu uppbótartíma.

Dries Mertens og Mauro Icardi komu Galatasaray í 2-0 áður en Sacha Boey, samherji þeirra, var rekinn af velli á 31. mínútu. Jue Balkovec minnkaði muninn á 68. mínútu og þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Koka fyrir Alanyaspor. Rúnar tryggði gestunum svo stig með því að verja frá Bayram skömmu síðar.

Rúnar kom til Alanyaspor á láni frá Arsenal um miðjan ágúst. Hann hefur leikið níu leiki fyrir Alanyaspor sem er í 10. sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar af nítján liðum.

Rúnar gekk í raðir Arsenal frá Dijon 2020. Á síðasta tímabili lék hann sem lánsmaður með Leuven í belgísku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×