Innlent

Deildar­­myrkvi sjáan­­legur frá Ís­landi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Myrkvinn mun sjást best frá norðaustur- og austurhluta landsins.
Myrkvinn mun sjást best frá norðaustur- og austurhluta landsins. Getty/Kaiser

Deildarmyrkvi á sólu verður sjáanlegur frá Íslandi á morgni þriðjudags 25. október ef veður leyfir. Myrkvinn hefst klukkan 8:59 og nær hámarki tæpri klukkustund síðar, klukkan 9:46.

Deildarmyrkvi verður þegar sólin og tunglið eru ekki alveg í beinni línu og hylur tunglið því sólina aðeins að hluta. Deildarmyrkvar sjást frá mun stærra svæði á jörðinni en almykrvar og hringmyrkvar, samkvæmt Stjörnufræðivefnum. Meiri líkur eru því á að fólk sjái fyrirbrigðið í vikunni en ella.

Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari og vísindamiðlari, vekur athygli á málinu á Facebook. Hann segir að ef horft er frá Reykjavík hylur tunglið um 20% af skífu sólar en um 25% ef horft er frá norðaustur- og austurhelmingi landsins.

Tvísýnt er um hvort að myrkvinn verði sjáanlegur á Íslandi. Í höfuðborginni er skýjað og spáð er rigningu víða um land. Engu að síður er þó mögulegt að það rofi til nógu lengi einhvers staðar til að hægt verði að sjá myrkvann á einhverju stigi hans.

Brýnt er að nota hlífðarbúnað eins og sólmyrkvagleraugu, og horfa ekki beint í sólina, en ský gætu búið til náttúrulega síu.

Sólin verður væntanlega frekar snemma á lofti á meðan myrkvanum stendur en honum lýkur loks klukkan 10:35, eftir að hafa staðið yfir í rúman einn og hálfan klukkutíma.

Sjáist myrkvinn ekki frá Íslandi vegna veðurs er hægt að horfa á streymið hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×