Ísabella, sem er 12 ára, reyndi að svipta sig lífi eftir að hafa orðið fyrir hrottalegu einelti. Móðir hennar, Sædís Hrönn Samúelsdóttir, fékk nóg eftir sjálfsvígstilraunina og ákvað að segja opinskátt frá raunum Ísabellu í Bítinu á Bylgjunni í gær.
Ísabella greindi sjálf frá upplifun sinni af einelti í kvöldfréttum Stöðvar 2 en frásögn hennar hefur vakið hörð viðbrögð í samfélaginu vegna stöðu eineltis- og ofbeldismála hér á landi en umfram allt samúð með Ísabellu. Stuðningskveðjum hefur rignt yfir hana.
Frænka Ísabellu, að nafni Ingibjörg Gróa, efndi til söfnunar í gærkvöldi en umtalsverð fjárhæð safnaðist á örskömmum tíma. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði Ingibjörg frá gleðifréttunum.
„Rétt í þessu tilkynnti ég Ísabellu Von að þökk sé framlagi, yfir hundruð samlanda okkar, sé hún og móðir hennar á leið til Flórída.“
Ingibjörg sagði að þær frænkurnar væru hreinlega orðlausar og meyrar. Söfnunin hefði farið fram úr hennar björtustu vonum. Hún segir að ónefnt fyrirtæki í Hafnarfirði hefði haft samband við sig og sagst vilja borga flugið til og frá Flórída fyrir mæðgurnar.
„Að finna og sjà fjölda fólks sem er tilbúinn að sameinast til að gleðja unga stelpu, leyfa henni að finna öryggi og tilhlökkun á ný eftir erfitt ár er aðdáunarvert í alla staði og sýnir að kærleikurinn og góðmennskan er àvallt meiri þótt reiði og hatur reyni að ná yfirhöndinni inn á milli,“ skrifar frænkan.
ATH! Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.