Lífið

Annað land dregur sig úr Euro­vision

Atli Ísleifsson skrifar
Intelligent Music Project fluttu framlag Búlgara í Eurovision í Torínó á Ítalíu.
Intelligent Music Project fluttu framlag Búlgara í Eurovision í Torínó á Ítalíu. Getty

Búlgarir hafa tilkynnt Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) að þeir muni ekki taka þátt í Eurovision-keppninni sem fram fer í Liverpool í Bretlandi í maí 2023.

Áður höfðu bæði Norður-Makedóníumenn og Svartfellingar tilkynnt um slíkt hið saman vegna hækkandi kostnaðar við þátttökuna.

Í frétt BBC segir að þátttökuríkin hafi verið beðin um að greiða meira fyrir þátttökuna í kjölfar þess að Rússum hafi verið meinuð þátttaka í keppninni. Ekki hefur verið gefið upp hvað ríkin þurfa að greiða, en áætlað sé að samanlagður kostnaður nemi um fimm milljónum punda, um 815 milljónum króna. Að auki greiði það land sem hýsir keppnina hverju sinni enn meira.

Staðfest er að 37 ríki hafi nú tilkynnt um þátttöku í keppninni í maí á næsta ári. Ísland er eitt þeirra.

Ekkert þeirra ríkja sem nú hafa dregið sig úr keppni næsta árs – það er Búlgaría, Norður-Makedónía og Svartfjalland – komst upp úr undanúrslitum í keppninni í maí 2022 sem haldin var í Torínó á Ítalíu.

Úkraínska sveitin Kalush Orchestra vann sigur í Eurovision fyrr á þessu ári með laginu Stefania. Vegna ástandsins í Úkraínu sökum innrásar Rússa var ákveðið að halda næstu keppni í Bretlandi.

Undanúrslitakvöldin fara fram dagana 9. og 11. maí næstkomandi og úrslitakvöldið laugardaginn 13. maí. Keppnin fer fram í Liverpool Arena.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×