Innlent

Segir meiri pólitíska þungavigt á Hringborði norðurslóða en áður

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson býður gesti velkomna á þing Hringborðs norðurslóða í Hörpu í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson býður gesti velkomna á þing Hringborðs norðurslóða í Hörpu í dag. Vilhelm Gunnarsson

„Þetta þing hefur meiri pólitíska þungavigt heldur en hin fyrri og er líka með öflugri þátttöku frá fjölmörgum ríkjum,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, stofnandi og formaður Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle, í viðtali við Stöð 2.

Þriggja daga þing Hringborðsins hófst í Hörpu við Reykjavíkurhöfn í morgun en Ólafur Ragnar bauð þátttakendur velkomna á formlegri setningarathöfn klukkan 13. Auk hans flytja ávörp við setninguna meðal annarra þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Mary Simon, þjóðhöfðingi Kanada, Hákon, krónprins Noregs, Alar Karis, forsætisráðherra Eistlands, og Múte B. Egede, forsætisráðherra Grænlands.

Ólafur Ragnar í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 í Hörpu fyrir setningarathöfnina.Bjarni Einarsson

Ólafur Ragnar nefnir að sendinefnd frá Bandaríkjunum komi með mjög öflugum hætti til Reykjavíkur nokkrum dögum eftir að Bandaríkin hafi tilkynnt um nýja stefnu í norðurslóðum. Indland sendi öfluga sendinefnd, sömuleiðis séu Kína, Japan og Kórea mætt til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

„Þannig að þetta þing, umfram önnur, staðfestir með mjög augljósum hætti að norðurslóðir eru orðinn svona meginvettvangur á valdaskákborði heimsins, hvað snertir samskipti ríkja, loftlagsbreytingar, nýtingu auðlinda, vísindarannsóknir,“ segir Ólafur Ragnar.

Hann segir öfluga þátttöku vísindasamfélagsins einnig einkenna þetta þing sem og þátttöku forystumanna frumbyggja. Þannig sé öll helsta forysta Grænlands mætt á þingið, þar á meðal forsætisráðherrann, utanríkisráðherrann og atvinnumálaráðherrann.

Hér má sjá átta mínútna langt viðtal Stöðvar 2 við Ólaf Ragnar um þing Arctic Circle:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×