Innlent

Meiri líkur á eldgosi nú en í fyrra

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Úr Grímsvötnum. Myndin er úr safni, tekin í desember á síðasta ári.
Úr Grímsvötnum. Myndin er úr safni, tekin í desember á síðasta ári. Vísir/RAX

Búist er að fyrstu merki hlaupsins úr Grímsvötnum sjáist á vatnshæðarmælum í Gígjukvísl síðar í dag og að hlaupið nái hámarki á morgun. Meiri líkur eru á eldgosi í framhaldi af hlaupinu nú en fyrir ári.

Fyrir um viku sjáist fyrstu merki þess á mælum Veðurstofunnar að íshellan í Grímsvötnum væri farin að síga og síðan þá hefur verið fylgst vel með svæðinu. Í gær var svo greint frá því að mælingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands gæfu til kynna að vatn væri farið að streyma úr Grímsvötnum og að von sé á hlaupi í Gígjukvísl.

„Við sjáum engin bein merki hlaupsins strax og búumst ekki við því að það sjáist á vatnshæðarmæli okkar í Gígjukvísl alveg strax en það merki sem mun sjást verður mögulega frekar lítið. Þetta er ekki stórt hlaup,“ segir Salomé Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Fyrstu merki hlaupsins á mælinu í Gígjukvísl sjást væntanlega í dag og hlaupið nær svo hámarki á morgun. Lág vatnsstaða í Grímsstöðum gerir það að verkum að hlaupið verður væntanlega ekki nema um fimmtungur á við síðasta hlaup. 

„Við höfum sett Grímsvötn á gulan fluglitakóðann okkar og það er vegna þess að það getur verið að þrýstingsléttir sem að verður á kvikuhólfinu þegar að íshellan sígur það getur verið að það virki sem gikkur og komi í rauninni gosi af stað. Það hefur gerst í sögunni en það er alls ekki gefið. Oftar hleypur án þess það gjósi í kjölfarið en við gerum þetta af því það eru auknar líkur í kjölfar hlaupsins.“

Hún segir erfitt að spá fyrir um hvort að það gjósi í framhaldi af þessu hlaupi en ef svo fer þá gerist það dagana og vikuna eftir að hlaupið nær hámarki.

„Það hefur náttúrulega ekki gosið síðan 2011 og það hefur orðið aukinn þrýstingur í kvikuhólfinu. Þannig það má vænta þess að það séu meiri líkur heldur en til dæmis í fyrra af því af því þegar það líður meiri tími þá eykst þrýstingurinn. Þannig að við bara bíðum og sjáum hvort að þetta sé nægt.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×