Ferðamálastofa mælir brottfarir erlendra ferðamanna sem og Íslendinga, svo halda megi utan um tölur um hversu margir sækja landið heim á ári hverju, sem og ferðavenjur Íslendinga.
Brottfarir Íslendinga voru um 60 þúsund í september og hafa aldrei mælst fleiri í þessum mánuði ársins. Frá áramótum hafa brottfarir Íslendinga mælst um 441 þúsund eða 95 prósent af því sem þær mældust á sama tímabili árið 2017, 87 prósent af því sem þær mældust á sama tímabili 2018 og 94 prósent af því sem þær mældust 2019, að því er segir á vef Ferðamálastofu.

Í síðasta mánuði voru brottfarir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli 177 þúsund. Um er að ræða fjórða fjölmennasta september frá því mælingar hófust. Brottfarir í september voru 76% af því sem þær voru í september 2018 þegar mest var, að því er fram kemur á vef Ferðamálastofu.
Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennasta þjóðernið í ágústmánuði frá 2013 og eru brottfarir þeirra í september álíka margar og í september 2017, eða um 53 þúsund. Flestar hafa brottfarir Bandaríkjamanna mælst í september 2018, 82 þúsund talsins.
„Frá áramótum hefur um 1,3 milljón erlendra farþega farið frá Íslandi en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra um 445 þúsund talsins. Enn er nokkuð langt í land að ná þeim fjölda brottfara sem var fyrir kórónaveirufaraldurinn en brottfarir voru tæplega 1.550 þúsund talsins á tímabilinu janúar til september 2019, um 277 þúsund fleiri en í ár.“