Fótbolti

Mættar til Algarve en vita ekki hvert þær fara svo

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdótir og Elísa Viðarsdóttir skellihlæjandi í upphitun fyrir æfingu landsliðsins í Portúgal.
Glódís Perla Viggósdótir og Elísa Viðarsdóttir skellihlæjandi í upphitun fyrir æfingu landsliðsins í Portúgal. @footballiceland

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er nú komið saman í Algarve í Portúgal þar sem það mun æfa næstu daga fyrir leikinn sem sker úr um það hvort þær komist í lokakeppni HM í fyrsta sinn.

Stelpurnar okkar voru greinilega í góðu skapi þegar ljósmyndari KSÍ náði af þeim myndum á æfingu eins og sjá má hér að neðan.

Þær munu æfa í Algarve fram á sunnudag en ferðast síðdegis þann dag á leikstað til að spila næsta þriðjudag úrslitaleik um sæti á HM.

Það kemur í ljós annað kvöld hvar sá leikur verður. Fyrst mætast nefnilega Portúgal og Belgía, í Portúgal, og mun Ísland mæta sigurliðinu annað hvort í Brussel, ef Belgía vinnur, eða portúgalska bænum Paços de Ferreira ef Portúgal vinnur.

Ísland var grátlega nálægt því að tryggja sig inn á HM í síðasta mánuði en 1-0 tap gegn Hollandi, með marki í uppbótartíma, gerði að verkum að liðið þarf að fara í umspil.

Ef Ísland vinnur leik sinn við Portúgal eða Belgíu í venjulegum leiktíma eða framlengingu er liðið öruggt um sæti á HM í Eyjaálfu næsta sumar. Vinni Ísland í vítaspyrnukeppni er mögulegt að liðið þurfi að fara í sérstakt aukaumspil í Eyjaálfu í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×