Innlent

Engin sprengja fundist enn sem komið er

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Unnið er samkvæmt viðbragðsáætlun á Keflavíkurflugvelli. 
Unnið er samkvæmt viðbragðsáætlun á Keflavíkurflugvelli.  Vísir/Vilhelm

Lögregla er enn að störfum á Keflavíkurflugvelli eftir að sprengjuhótun um borð í flugvél barst í gærkvöldi. Flugvellinum var lokað um tíma en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var opnað aftur fyrir umferð í nótt. Engin sprengja hefur enn fundist. 

Tilkynnt var um sprengjuhótunina klukkan 22:47 en um var að ræða fraktflugvél af gerðinni Boeing 747 sem var á leiðinni frá Köln í Þýskalandi til Kentucky í Bandaríkjunum, að því er kemur fram í tilkynningu lögreglu. 

Flugvélinni var lent á Keflavíkurflugvelli eftir að sprengjuhótunin barst og þegar fréttastofa náði tali af lögreglunni á Suðurnesjum skömmu eftir klukkan sex voru viðbragðsaðilar enn að störfum. Enginn sprengja hafði þá fundist. 

Sprengjusérfræðingar sérsveitar ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslan eru að störfum í vélinni en unnið er samkvæmt sérstakri neyðaráætlun vegna flugverndar fyrir Keflavíkurflugvöll. 

Öðrum vélum beint annað um tíma

Nokkrum flugvélum, sem áttu að lenda á Keflavíkurflugvelli eftir að atvikið átti sér stað, var beint annað. Um var að ræða vélar sem áttu að lenda milli klukkan ellefu og tólf í gærkvöldi. 

Samkvæmt upplýsingum á vef Keflavíkurflugvallar lentu tvær vélar sem beint var annað á vellinum í nótt. 

Heimildir fréttastofu herma að ein flugvél frá Wizz air og önnur frá Transavia hafi verið beint til Egilsstaða.

Þá hafi einnig flugvél Play sem var að koma til landsins frá Madríd verið beint til Aukureyrarflugvallar. Annarri var snúið við til brottfararstaðar. Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu.

Þá mun flugvél frá Lufthansa, samkvæmt heimildum, hafa lent í Glasgow en áætlað er að hún muni lenda á Keflavíkurflugvelli klukkan 9:40. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×