Innlent

Fjöl­margir ferða­menn fastir í Mý­­vatns­­ör­æfum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Eins og sjá má á myndinni hefur fjölmörgum vegum verið lokað.
Eins og sjá má á myndinni hefur fjölmörgum vegum verið lokað. Vegagerðin

Fjöldi ferðamanna situr fastur í bílum sínum í Mývatnsöræfum. Talið er að bílarnir séu 20 til 30 talsins og björgunarsveitir vinna að því að ferja fólkið í öruggt skjól. Um 30 metrar á sekúndu eru á svæðinu og slydda - og skyggni slæmt.

Ingibjörg Benediktsdóttir situr í aðgerðastjórn Landsbjargar og stýrir aðgerðum á Húsavík í samráði við björgunarsveitir og lögreglu. Hún segir í samtali við fréttastofu að verið sé að kalla út fleiri björgunarsveitir á svæðinu. Rúv greindi fyrst frá.

„Við erum að byrja að reyna að ferja fólkið í burtu eins og hægt er. En sums staðar er bara hreinlega ekki hægt að fara út úr bílum þannig að við biðjum fólk um að vera í bílunum þangað til björgunarsveitir koma á svæðið,“ segir Ingibjörg.

Hún segir að um sé að ræða erlenda ferðamenn, margir á húsbílum eða illa útbúnum litlum bílum.

„Það er aðallega vindurinn. Það er rosalega hvasst þarna. Það er einn [húsbíll] sem fór á hliðina svo ég viti til en það var eftir að björgunarsveitarmaður náði fólkinu úr bílnum og hann horfði bara á bílinn fara á hliðina.“

Hvað heldurðu að valdi því að fólk hætti sér út í óveðrið?

„Ég held að fólk vanmeti þetta bara. Kannski vantar upp á upplýsingagjöf, ég veit það ekki. En fólk er ábyggilega illa upplýst af því að ef þú ferð af stað í húsbíl í svona veðri, þá veistu ekki hvað er að gerast,“ segir Ingibjörg.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.