Innlent

For­maður Presta­fé­lags Ís­lands segir af sér

Árni Sæberg skrifar
Arnaldur Bárðarson er fráfarandi formaður Prestafélags Íslands.
Arnaldur Bárðarson er fráfarandi formaður Prestafélags Íslands. Vísir

Arnaldur Bárðarson, formaður Prestafélags Íslands, hefur tilkynnt að hann muni segja af sér störfum á aukaaðalfundi þann 10. október næstkomandi. Það segist hann munu gera til að lægja öldur sem risið hafa vegna formennsku hans.

Á dögunum lýsti Félag prestvígðra kvenna yfir vantrausti á hendur Arnaldi sem sneri meðal annars að ummælum sem Arnaldur hafði í viðtali um mál séra Gunnars Sigurjónssonar, sem verður áminntur fyrir ósæmilega hegðun gagnvart konum á vinnustað hans í Digranes- og Hjallaprestakalli.

Í viðtali Arnalds á Útvarpi Sögu lét hann þau orð falla að Gunnar sjálfur væri orðinn þolandi í málinu - rannsókn teymis þjóðkrikjunnar hefði tekið alltof langan tíma.

Í samtali við fréttastofu á dögunum sagði Arnaldur munu íhuga afsögn ef hann nyti ekki lengur trúnaðar kvenna í prestastétt en það gæti hann ekki gert á grundvelli lyga eða rangfærslna. Hann sagði vantraustsyfirlýsingu kvenpresta byggða á slíkum lygum og rangfærslum.

Í yfirlýsingu til fréttastofu í kvöld hefur Arnaldur hins vegar tilkynnt að hann muni boða til aukaaðalfundar Prestafélags Íslands þar sem hann muni segja af sér störfum til að lægja öldur sem risið hafa um formennsku hans í félaginu og til að hlífa þeim konum sem eru þolendur mála í Hjalla- og Digraneskirkju við frekari sársauka. Þá biður hann þeim og öllum konum blessunar.

„Hvet ég alla karlmenn til að koma vel fram við konur bæði í orði og verki. Ég leyfi mér að minna á heilræði sálmaskáldsins góða sr. Hallgríms Péturssonar,“ segir í yfirlýsingu Arnaldar.

Vertu dyggur, trúr og tryggur,

tungu geym vel þína,

við engan styggur né í orðum hryggur,

athuga ræðu mína.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.