Innlent

Sláandi munur á færni leik­skóla­barna

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Tvítyngd börn standa mun verr að vígi en þau sem hafa íslensku sem móðurmál.
Tvítyngd börn standa mun verr að vígi en þau sem hafa íslensku sem móðurmál. vísir/vilhelm

Börn af annarri kyn­slóð inn­flytj­enda ná mun verri tökum á ís­lensku en áður var talið. Þetta sýnir ný rann­sókn á vegum Há­skóla Ís­lands en vísinda­mennirnir segja stöðuna graf­alvar­lega og kalla eftir ís­lensku­kennslu í leik­skólum.

Sam­kvæmt niður­stöðum rann­sóknarinnar eru 97 prósent fimm ára al­ís­lenskra barna með mun betri ís­lensku­færni en börn sem eiga er­lenda for­eldra og fæðast á Ís­landi.

Þetta eru sláandi niður­stöður að sögn eins rann­sakandans, enda hafi lengi verið talið að er­lend börn sem fæðist á Ís­landi nái fljótt góðum tökum á málinu inni í leik­skólunum.

„Þetta virðist vera al­gengur mis­skilningur að börn læri tungu­mál eins og að drekka vatn. En þetta er erfitt fyrir þau og við verðum að hafa það í huga að það er ekki eins ein­falt og við töldum fyrir þau að læra tungu­málið,“ segir Hjör­dís Haf­steins­dóttir, sem vann rann­sóknina á­samt þeim Jóhönnu T. Einars­dóttur prófessor og Irisi Eddu Nowen­stein, doktors­nema í ís­lenskri mál­fræði. Rann­sóknin er byggð á meistara­verk­efni Hjör­dísar.

Vill íslenskukennslu í leikskóla

Börnin sem tóku þátt í könnunni voru öll fimm ára gömul, í efsta bekk í leik­skóla.

Hjör­dís segir þennan hóp gjarnan gleymast í um­ræðunni. Al­mennt sé litið svo á að önnur kyn­slóð inn­flytj­enda á Ís­landi hafi jöfn tæki­færi og aðrir í sam­fé­laginu.

„Þetta hefur á­hrif á sjálfs­mynd; að börn geti ekki tjáð vilja sinn og skoðanir. Þannig að þau draga sig alveg til hlés. Svo náttúru­lega er það þetta tæki­færi til menntunar. Þau hafa ekki sömu tæki­færi til menntunar eins og ís­lensk börn,“ segir Hjör­dís.

Tví­tyngdu börnin voru marg­falt lík­legri til að eiga erfitt með beygingar, eðli­lega orða­röð innan setninga og höfðu mun verri orða­forða en hin börnin.

Hjör­dís sem sjálf hefur unnið í leik­skóla kallar eftir að­gerðum. Ekki skorti vilja til þess meðal leik­skóla­kennara að auka ís­lensku­kennslu fyrir þennan hóp.

„En hafa kannski ekki tækin til þess eða tæki­færi til þess. Þannig já þetta er eitt­hvað sem þarf að endur­skoða,“ segir Hjör­dís.


Tengdar fréttir

Ég tala ekki gótt Ís­lensku

Já, ég veit. Það á að segja „ég tala ekki góða íslensku”. Málið er ekki að mig langi til að skrumskæla þetta fallega tungumál í hvert skipti sem ég opna munninn, málið er bara það að ég er að læra (og ég er einnig að eldast þannig að heilinn minn er ekki nærri því jafn skarpur og hann var áður fyrr).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×