Innlent

Skoða betur í hverju gagn­rýni fyrr­verandi starfs­manna felst

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Lilja telur ótímabært að tjá sig um lýsingar fyrrverandi starfsmanna Listasafns Íslands á stjórnarháttum Hörpu. Ráðuneytið verði að fá að kanna í hverju óánægja þeirra felst. 
Lilja telur ótímabært að tjá sig um lýsingar fyrrverandi starfsmanna Listasafns Íslands á stjórnarháttum Hörpu. Ráðuneytið verði að fá að kanna í hverju óánægja þeirra felst.  Vísir/Vilhelm

Menningar- og viðskiptaráðherra segir að ráðuneyti sitt kanni nú í hverju óánægja nokkurra fyrrverandi starfsmanna Listasafns Íslands með stjórnunarstíl Hörpu Þórsdóttur, sem ráðherrann réð án auglýsingar í stöðu þjóðminjavarðar, felst.

Fréttastofa greindi frá því í upphafi mánaðar að nokkrir fyrrverandi starfsmenn listasafnsins, sem Harpa stýrði frá árinu 2017, hafi lýst afar ófaglegum stjórnunarstíl hennar. Á stuttum tíma eftir að Harpa tók við starfi safnstjórans hafi um og yfir tíu manns hætt að starfa þar. 

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur ekki viljað veita viðtal vegna málsins og segir ráðuneytið vera að skoða það nánar. Hún vilji ekki ræða það fyrr en hún hafi betri upplýsingar innan úr listasafninu. 

Skipun Lilju á Hörpu í stöðu þjóðminjavarðar hefur verið talsvert gagnrýnd af ýmsum fagfélögum, BHM og sjálfum starfsmönnum Þjóðminjasafnsins. Gagnrýni þeirra hefur ekki snúið að Hörpu sjálfri heldur þeirri ákvörðun ráðherrans að auglýsa stöðuna ekki, líkt og almenna reglan er með opinberar stöður.

Ráðherrar hafa heimild til að víkja frá þeirri reglu ef rökstuðningur fyrir því er fyrir hendi. Þessi leið hefur verið farin oft áður en gagnrýnin á skipan Hörpu í stöðu þjóðminjavarðar felst einna helst í því hve rökstuðningur ráðherrans hefur verið dræmur. Lilja hefur rökstutt ráðninguna með þeim rökum að Harpa sé einfaldlega mjög hæfur stjórnandi. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.