Innlent

Raf­bíla­væðing mögu­lega farin að skila árangri

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Gripið hefur til aðgerða í loftslagsmálum sem búist er við að skili árangri á næstu árum.
Gripið hefur til aðgerða í loftslagsmálum sem búist er við að skili árangri á næstu árum. Vísir/Vilhelm

Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um þrjú prósent á milli áranna 2020 og 2021. Vegasamgöngur, fiskiskip og iðragerjun eru stærstu losunarþættirnir. Umhverfisstofnun segir að rafbílavæðingin hafi mögulega skilað árangri og bráðabirgðaniðurstöður gefi góða mynd af losun Íslands.

Losun frá vegasamgöngum jókst um fjögur prósent sem Umhverfisstofnun telur helgast af aukningu ferðamanna. Þar hafi rútur og hópbifreiðar skipað stóran sess. Eðli málsins samkvæmt jókst losun vegna flugsamgangna töluvert eða um heil 58 prósent árið 2021.

Rafbílavæðing er mögulega farin að skila árangri en heildarfjöldi ekinna kílómetra fólksbíla hefur aukist síðustu ár. Á sama tíma hefur losun þeirra verið að dragast saman, sem Umhverfisstofnun telur að rekja megi til aukinnar notkunar rafbíla.

Á grafinu sést aukning í heildarfjölda ekinna kílómetra fólksbíla, á meðan losun minnkar.Umhverfisstofnun

Loðnuvertíðin hafði einnig áhrif en losun frá fiskiskipum jókst um 13 prósent árið 2021, miðað við árið á undan.

Losunin var rétt undir úthlutuðum heimildum fyrir árið 2021 en samkvæmt bráðabirgðatölum nam losun Íslands árið 2021 4.672 tonnum af koltvísýringsígildum.

Með Parísarsáttmálanum hefur Ísland skuldbundið sig til að ná 29 prósent samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2030. Miðað er við árið 2005 en samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum er losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands 12 prósentum minni en hún var árið 2005. Umhverfisstofnun telur niðurstöðurnar gefa góða mynd og gert er ráð fyrir betri árangri með auknum aðgerðum í loftslagsmálum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.