Innlent

Vaðlaheiðargöngunum lokað í fimm tíma vegna æfingar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vaðlaheiðargöngunum verður lokað í fimm tíma í dag vegna æfingar slökkviliðs.
Vaðlaheiðargöngunum verður lokað í fimm tíma í dag vegna æfingar slökkviliðs. Vísir/Vilhelm

Vaðlaheiðargöngum verður lokað í dag á milli klukkan tíu og fimmtán vegna æfingar á viðbragði við umferðarslysi og reyk í göngunum. Nýr æfingarbúnaður verður notaður í fyrsta skipti hér á landi við æfinguna.

Slökkvilið beggna vegna ganga munu taka þátt í æfingunni þar sem markmiðið er að sjá hvernig reykur fyllir gönginn, hvernig reykkafarar geta athafnað sig í göngunum og bjargað fólki úr bílflaki. Þá verður einnig kannað hvernig reyklosun með gangablásurum tekst.

Notast verður við sérstakan æfingarbúnað sem Vegagerðin fjárfesti í á síðasta ári. Búnaðurinn samanstendur meðal annars af reykvélum, gasbrennurum, ljósum og hátölurum.

Með búnaðinum er hægt að setja upp vettvang sem reynir á slökkviliðin eins og um alvöru eld væri að ræða, þó án allrar mengunar eða áhættu á heilsutjóni fyrir hlutaðeigandi.

Er þetta í fyrsta sinn sem búnaðurinn verður prófaður og notaður í göngum hér á landi. Á meðan æfingin stendur yfir verður lokað fyrir almenna umferð um göngin, sem tengja saman Eyjafjörð og Fnjóskadal.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×