Erlent

Pútín verður ekki við­staddur út­för Gor­bat­sjov

Atli Ísleifsson skrifar
Míkhaíl Gorbatsjov og Vladimír Pútín ræða saman árið 2004.
Míkhaíl Gorbatsjov og Vladimír Pútín ræða saman árið 2004. EPA

Vladimír Pútín Rússlandsforseti mun ekki sækja útför Míkhaíl Gorbatsjov, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, sem fram fer í Moskvu á laugardag.

Reuters greinir frá þessu. Er áður ákveðin dagskrá Rússlandsforseta sögð koma í veg fyrir að hann geti sótt útförina.

Gorbatsjov var leiðtogi Sovétríkjanna á árunum 1985 til 1991 og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1990 fyrir þátt sinn í að draga úr spennu í samskiptum austurs og vesturs.

Gorbatsjov lést síðastliðinn þriðjudag eftir veikindi, en hann varð 91 árs gamall.

Pútín hefur áður lýst falli Sovétríkjanna sem mesta harmleik í sögu Rússlands og er því talinn hafa kunnað Gorbatsjov litlar þakkir fyrir hans þátt í falli Sovétríkjanna. Pútín hefur þó aldrei gagnrýnt Gorbatsjov beinum orðum og sagði í gær að Gorbatsjov hafi haft mikil áhrif á gang mannkynssögunnar.

Útförin fer fram í Súlnasal Húss verkalýðsfélaganna í Moskvu, á sama stað þar sem lík Jósef Stalín lá frammi eftir að hann lést árið 1953. Útförin verður opin almenningi, en Gorbatsjov verður svo jarðsettur í Novodevitsjí-kirkjugarðinum í Moskvu.

Rússneskir fjölmiðlar hafa birt myndir af Pútín þar sem hann lagði blómvönd við kistu Gorbatsjov í morgun.


Tengdar fréttir

Putin grætur Gorbachev krókódílatárum

Þjóðarleiðtogar víða um heim minnast Mikhails Gorbachevs síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, sem lést í gærkvöldi níutíu og eins árs að aldri, fyrir þátttöku hans í lokum kaldastríðsins. Ráðamenn í Rússlandi bera harm sinn hins vegar í hljóði enda andúð Rússlandsforseta á sovétleiðtoganum fyrrverandi öllum kunn.

Dáður á Vesturlöndum en fyrirlitinn heima fyrir

Mikhail Gorbachev síðasti leiðtogi Sovétríkjanna sem lést í dag níutíu og eins árs að aldri var dáður á Vesturlöndum fyrir þátt hans í lokum kalda stríðsins en fyrirlitinn heima fyrir vegna hruns Sovétríkjanna og versnandi hag almennings.

Míkhaíl Gorbatsjov er látinn

Míkhaíl Gorbatsjov, síðasti leiðtogi Sovétríkjanna, er látinn 91 árs að aldri. Gorbatsjov hafði verið að glíma við veikindi í langan tíma og lést á spítala í Moskvuborg í dag. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×