Innlent

Sól og sumar fyrir norðan en rok og rigning fyrir sunnan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Veðrinu verður misskipt á morgun, eins og glögglega má sjá á þessari mynd.
Veðrinu verður misskipt á morgun, eins og glögglega má sjá á þessari mynd. Veðurstofan

Veðrið mun leika við íbúa á Norður- og Austurlandi á morgun. Íbúar á Suður- og Vesturlandi þurfa hins vegar á sama tíma að þola grenjandi rigningu og stífa suðaustanátt.

Ágústmánuður hefur verið í kaldara lagi á mestöllu landinu. Á morgun verður þó breyting á fyrir íbúa á Norðurlandi og Austurlandi

Spáð er allt að 22 stiga á Akureyri, svipaða sögu er að segja um aðra hluta Norðurlands.

„Á morgun á Norðurlandi er líklegt að hitinn fari allvíða yfir tuttugu gráður,“ segir Birkir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við Vísi.

Búast má reyndar við nokkuð stífri sunnanátt á svæðinu. Hún mun þó leika lykilhlutverk í að ýta hitanum upp fyrir tuttugu stig á morgun.

Nokkuð hlýtt loft liggur yfir landinu.Veðurstofan

„Sunnanáttin heldur allri hafgolu í burtu,“ segir Birkir Örn. Á Austurlandi er svipaða sögu að segja þar sem reikna má með allt að tuttugu stiga hita víðast hvar í landshlutanum.

Veðrinu er þó misskipt á morgun. Spáð er rigningu og roki sunnan- og vestantil. Íbúar á Suður- og Vesturlandi þurfa því væntanlega að þola óbærilegar sólarmyndir frá Norður- og Austurlandi á samfélagsmiðlum á morgun.

„Á morgun er þetta í rauninni bara stíf suðaustanátt og grenjandi rigning sunnan- og vestantil á landinu á meðan það verður þetta bjartviðri fyrir norðan,“ segir Birkir Örn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×